Fótbolti

Lars: Alltaf hægt að vinna með leikmann eins og Gylfa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Ljubljana skrifar
Lars Lagerbäck í leiknum í kvöld.
Lars Lagerbäck í leiknum í kvöld. Mynd/AP
Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari var vitanlega hæstánægður með 2-1 sigur Íslands á Slóveníu í Ljubljana í dag.

Slóvenar komust yfir í fyrri hálfleik en Gylfi Þór Sigurðsson tryggði Íslandi sigur með tveimur mörkum í seinni hálfleik.

„Ég varð þó fyrir vonbrigðum með frammistöðuna í fyrri hálfleik. Við spiluðum illa þá. En Slóvenar voru góðir og gerðu okkur erfitt fyrir."

„Við komum svo til baka og sýndum frábæran karakter í seinni hálfleik. Við vorum þá klárlega betra liðið. Svo erum við með Gylfa þór sem skoraði tvö frábær mörk og með þannig leikmönnum er alltaf hægt að vinna leiki."

„Það er þó liðið allt sem á hrós skilið fyrir frammistöðuna í seinni hálfleik. Liðið sýndi allt annað og betra viðhorf þá."

Lokamínútur leiksins voru erfiðar og Lars viðurkennir að taugarnar hafi verið þandar. „Það var kannski aðeins hærri púls en venjulega en þetta fór vel. Sigurinn þýðir að við erum í góðri stöðu í riðlinum og í baráttunni um annað sætið. Við eigum góðan séns ef leikmenn haldast heilir og spara gulu spjöldin."

Hann hrósaði Hannesi Þór markverði fyrir frammistöðu sína. „Þetta voru kannski ekki erfiðustu skotin sem ég hef séð en hann steig ekki feilspor allan leikinn. Þetta var 100 prósent frammistaða frá honum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×