Fótbolti

Gylfi: Sá hann í skeytunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Ljubljana skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu með félögum sínum í íslenska liðinu.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu með félögum sínum í íslenska liðinu. Mynd/AP
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði mark í heimsklassa þegar hann jafnaði metin í leik Íslands og Slóveníu í kvöld. Leiknum lyktaði með sigri, 2-1, og skoraði Gylfi bæði mörkin.

„Þetta var góð tilfinning, sérstaklega eftir slappan leik af okkar hálfu. Við náðum aldrei boltanum niður og komast í þann venjulega gír sem við viljum vera í. En þetta var erfiður leikur og sérstaklega gott að hafa unnið hann á útivelli," sagði Gylfi sem neitar því ekki að aukaspyrnumarkið hafi verið eitt hans besta á ferlinum til þessa.

„Þetta var frekar langt frá og gaman að sjá hann í skeytunum. Kolli var eitthvað að gera sig líklegan til að taka spyrnuna en það kom ekki til greina," sagði hann brosandi.

„Það var svo jafnvel enn sætara að skora síðara markið og halda forystunni til loka. Við vörðumst allir vel síðustu 15-20 mínúturnar og Hannes tók 5-6 erfiða bolta. Hann á mikið hrós skilið, eins og allir í liðinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×