Fótbolti

Eiður Smári: Getur orðið besta landslið sem Ísland hefur átt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Ljubljana skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen
Eiður Smári Guðjohnsen Mynd/Anton
Eiður Smári Guðjohnsen lagði upp sigurmark Íslands gegn Slóveníu í undankeppni HM 2014 í kvöld, eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

„Ég sagði nú við Lars að við hefðum unnið stærra hefði ég byrjað," sagði Eiður í léttum dúr eftir leikinn.

Hann byrjaði að hita upp snemma í síðari hálfleik og til stóð að hann myndi koma fyrr inn á. En jöfnunarmark Gylfa breytti því.

„Upphitunin var aðeins lengri en til stóð. En maður verður að hita vel upp enda oft í leikjum eins og þessum að maður getur staðið á öndinni eftir tvær mínútur eftir að maður kemur inn á," sagði Eiður.

Hann segir þó að liðið hafi ekki náð sér á strik í fyrri hálfleik. „Við vorum ekki ánægðir með hann af augljósum ástæðum. Mér fannst við reyndar hættulegir þegar við unnum boltann en vorum kannski aðeins of ákafir."

„Við héldum ekki boltanum nógu vel og vorum kannski að bíða eftir að eitthvað myndi gerast. En við unnum og það er frábært að fara heim með þrjú stig."

Hann segir að jöfnunarmark Gylfa hafi breytt leiknum. „Mér fannst Slóvenar ekki pressa neitt svakalega á okkur eftir það og þá fer maður að trúa því að það sé hægt að ná í öll þrjú stigin."

Eiður hefur spilað lengi með landsliðinu og með mörgum leikmönnum í gegnum tíðina. „Ég vil kannski ekki vanmeta aðra leikmenn sem við höfum átt en ég tel að þessi hópur leikmanna sem við eigum nú er jafnasti hópur sem við höfum átt. Við eigum nánast heila kynslóð af hágæða knattspyrnumönnum og er með nokkra menn sem geta gert gæfumuninn," sagði Eiður.

„Ég vil ekki segja að þetta sé besta lið sem Ísland hefur átt en þetta getur klárlega orðið það."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×