Fótbolti

Hannes: Menn eins og Gylfi gera gæfumuninn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Ljubljana skrifar
Hannes Þór Halldórsson
Hannes Þór Halldórsson Mynd/Vilhelm
Hannes Þór Halldórsson átti flottan leik í marki íslenska liðsins í 2-1 sigri á Slóveníu í undankeppni HM 2014 í kvöld.

„Þetta var stór og mikill sigur. Gríðarlega mikilvægur og kemur okkur í góða stöðu," sagði Hannes eftir leikinn í kvöld.

„Nú er þetta í okkar höndum og við getum núna gert harða atlögu að öðru sætinu. Þetta er ekki staða sem landsliðið hefur ekki verið í oft áður."

Ísland spilaði þó ekki vel í fyrri hálfleik og var 1-0 undir að honum loknum. Hannes segir að þjálfarinn Lars Lagerbäck hafi verið rólegur í hálfleiknum.

„Hann var ekki að láta okkur heyra það þó svo að við hefðum átt það skilið. Við vorum mjög slakir í fyrri hálfleik - vorum taugaveiklaðir, spiluðum boltanum illa og langt frá mönnunum."

„Það komu svo ferskir menn inn á sem breyttu ýmsu. Við erum svo með menn eins og Gylfa Þór sem getur gert ótrúlega hluti. Það gerir gæfumuninn í svona leik."

Slóvenar sóttu stíft að marki Íslands síðustu tíu mínútur leiksins en strákarnir héldu ró sinni allt til loka. „Þetta var eðlilegur gangur leiksins, miðað við að við vorum á útivelli og marki yfir. Þá fellur maður aðeins til baka og reynir að verja forskotið."

„En við vorum þéttir fyrir og hleyptum þeim ekki í nein opin færi. Það var svo ótrúlega sætt þegar dómarinn flautaði leikinn af. Þetta eru sætustu sigrarnir."

Hannes hefur staðið sig vel með landsliðinu og sýndi enn og aftur í kvöld að hann á fullt erindi í atvinnumennskuna.

„Það verður bara að koma í ljós hvort eitthvað gerist í mínum málum. Ég er hættur að spá í hvað þurfi til að komast út. Það hefur ýmislegt verið í spilunum en ekkert gengið. Kannski hjálpaði þetta eitthvað til en þangað til að eitthvað gerist mun ég einbeita mér að KR."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×