Fótbolti

Capello kennir óþekkum áhorfanda um hvernig fór

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kaka í leiknum.
Kaka í leiknum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Fabio Capello, þjálfari rússneska landsliðsins, kennir óþekkum áhorfenda um að hans mönnum hafi ekki tekist að halda út á móti Brasilíu í vináttulandsleik á Stamford Bridge í gærkvöldi.

Rússar voru nokkrum mínútum frá því að vinna sinn fyrsta sigur á Brasilíu síðan að Sovétríkin skiptust upp en Fred tryggði Brasilíumönnum 1-1 jafntefli á 90. mínútu leiksins en skömmu áður hafði einn af 35 þúsund áhorfendum leiksins fundið sér leið framhjá öryggisvörðum og komist inn á völlinn.

Capello var ánægður með leikinn og úrslitin en taldi innáhlaup áhorfendans spilla einbeitingu leikmanna rússneska liðsins en atvikið gerðist rétt fyrir leikslok.

„Ég er ánægður með hvernig við spiluðum og hvernig fór. Einu vonbrigðin eru að mínir menn misstu einbeitinguna eftir að áhorfandinn kom inn á völlinn. Það er ekki hægt á móti liði eins og Brasilíu," sagði Fabio Capello á vel sóttum blaðamannafundi eftir leikinn.

Victor Faizulin kom Rússum í 1-0 þegar 17 mínútur voru til leiksloka en Fred jafnaði með sínum þriðja marki í þremur leikjum síðan að Luiz Felipe Scolari tók við. En hvað sagði Scolari þegar hann heyrði af ummælum Capello?

„Þegar ég var þjálfari Portúgals og við vorum að spila við Eistland, þá hljóp mjög falleg berbrjósta kona inn á völlinn. Allir voru að horfa á hana og meira að segja ég. Þá var staðan 0-0 í leiknum en við unnum síðan 2-0. Ég veit ekki hvort þessi maður truflaði rússneska liðið en hver veit það getur alveg gerst," sagði Luiz Felipe Scolari í léttum tón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×