Fótbolti

Del Bosque: Ekkert stress í spænska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vicente del Bosque.
Vicente del Bosque. Mynd/Nordic Photos/Getty
Vicente del Bosque, þjálfari spænska landsliðsins, segir engan kvíða vera í sínum mönnum fyrir leikinn mikilvæga á móti Frökkum í kvöld en leikurinn gæti farið langt með að ráða úrslitum um hvor þjóðin vinni riðilinn og tryggir sér beint sæti inn á HM í Brasilíu 2014.

"Við erum ekkert stressaðir. Það er samt eðlilegt að menn skoði aðeins það sem hefur verið að gerast í síðustu tveimur leikjum liðsins í undankeppninni. Við höfum haft mikla yfirburði í þeim báðum en ekki tekist að skora meira en eitt mark. Ég skil því alveg að fólk sé farið að efast eitthvað um okkur," sagði Vicente del Bosque.

Spánverjar gerðu óvænt 1-1 jafntefli við Finna á föstudaginn og Frakkar náðu 1-1 jafntefli í fyrri leik þjóðanna á Spáni. Frakkar hafa nú tveggja stiga forskot á toppi riðilsins þegar liðin eiga bæði fjóra leiki eftir með leiknum í París í kvöld.

„Við megum alls ekki vera stressaðir og verðum bara að halda ró okkar. Markmiðið er að opna völlinn með því að halda vel breiddinni. Við leitum leiða til að opna vörn þeirra og þetta verður mun opnari leikur en sá í Madrid," sagði Del Bosque.

„Frakkar eiga fullt af hröðum og hæfileikaríkum leikmönnum sem hafa metnað til þess að spila góðan fótbolta. Liðið er með sterka menn eins og [Karim] Benzema, [Franck] Ribery, [Yohan] Cabaye og [Mathieu] Valbuena. Við vissum alltaf að Frakkar yrði erfiður mótherji því þeir hafa gæði og reynslu til að spila svona leiki," sagði Del Bosque.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×