Innlent

Björgólfur Thor: Þjóðin datt í rifrildi og gleymdi staðreyndunum

Björgólfur Thor
Björgólfur Thor
„Svona er þetta búið að vera, Landsbankamenn hafa farið með veggjum, meðal annars gjaldkerar bankans," sagði Björgólfur Thor Björgólfsson, fyrrverandi aðaleigandi Landsbankans, en félagarnir í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni ræddu við hann í dag eftir að hann birti harðorðan pistil á vef sínum.

Samtalið hófst á því að Reykjavík síðdegis óskaði Björgólfi til hamingju með daginn, „takk og sömuleiðis," svaraði Björgólfur kampakátur.

Björgólfur sagði meðal annars að umræðan um Icesave hefði verið stóryrt, og að stjórnmálamenn hefðu breytt Icesave-málinu í einhverskonar Grýlu til þess að hræða Íslendinga til fylgis við sig.

Björgólfur stendur sjálfur við sín orð sem hann skrifaði á bloggsíðu sína, og bætir við að sigurinn í dag sé fyrst og fremst lögfræðilegur. „En málstaðurinn er góður. Það er óeðlilegt að það sé ríkisábyrgð á svona löguðu," bætti Björgólfur svo við.

Björgólfur er hneykslaður á umræðunni sem heltók umræðuna hér á landi. „Menn ræddu landráð og annað eins bull sem hleypti fjölskylduboðum í uppnám," sagði Björgólfur. „En Grýla er dauð. Þetta er loksins búið," bætti hann við.

Björgólfur tók fram að þrotabú Landsbankans heldur áfram að greiða forgangskröfur og mun greiða Icesave reikninga. Hann benti einnig á að ríkið hefði tekið bankann yfir og þá greitt 120 milljarða. „Núna eru 200 milljarðar inni í þrotabúinu," sagði Björgólfur.

„Þetta Icesave mál er búin að vera algjör langavitleysa og hefur hangið yfir höfði fólks sem má anda léttar nú," sagði Björgólfur svo og lauk máli sínu á þessum orðum: „Fólk má ekki detta í rifrildi og gleyma öllum staðreyndum, sem var það sem gerðist fyrir heila þjóð í þessu máli."

Viðtalið má hlusta á í heild sinni hér fyrir ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.