Erlent

Konungur rússnesku mafíunnar myrtur

Hinn ókrýndi konungur rússnesku mafíunnar, Aslan Usojan, var myrtur af leyniskyttu fyrir utan veitingahús skammt frá Kreml í Moskvu síðdegis í gær.

Í rússneskum fjölmiðlum segir að veitingahúsið sem Aslan var að stíga út úr, og heitir Karetnij Dvor, hafi verið óopinber skrifstofa hans. Launmorðinginn skaut aðeins einu skoti í Aslan og hann mun hafa verið enn á lífi þegar sjúkrabíll kom á staðinn. Aslan lést síðan í bílnum á leið á bráðadeild.

Aslan sem orðinn var 75 ára gamall hafði gælunafnið Hassan afi en hann var af kúrdískum ættum. Hann hófst til vegs og virðingar innan mafíunnar í Georgíu þegar Sovétríkin sálugu voru og hétu. Síðar flutti hann glæpastarfsemi sína til Moskvu og fleiri héraða í Rússlandi.

Eitt af dagblöðunum í Moskvu, Komsomolskaja Pravda, segir að Aslan hafi verið konungur rússnesku mafíunnar en hann hafði áður lifað af nokkur morðtilræði gegn sér.

Yfirvöld í Rússlandi hafa töluverðar áhyggjur af því að morðið á Aslan muni leiða til mafíustríðs í landinu af áður óþekktri stærðargráðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×