Innlent

Játaði að hafa ráðist á Riddara götunnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Stefán
Maðurinn sem handtekinn var í gær grunaður um að hafa ráðist á Guðjón Guðjónsson og stolið bíl hans hefur játað sök sína í málinu.

Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni, staðfesti þetta í samtali við Vísi í dag.

Að sögn Ómars játaði maðurinn aðild sína að málinu og hefur verið sleppt. Ekkert liggi þó fyrir um tengsl ránsins og andláts Guðjóns fjórum dögum eftir árásina. Málið sé því ekki rannsakað sem manndrápsmál sem stendur.

Maðurinn stöðvaði Guðjón á Hverfisgötu í miðbæ Reykjavíkur laugardagskvöldið 12. janúar. Hann neyddi hann til að aka honum í Kópavog þar sem maðurinn réðst á hann, henti út úr bílnum og ók á brott. Þar fundu tvær konur Guðjón og hringdu á lögreglu.

Hinn 76 ára gamli Guðjón var mörgum þeirra sem sækja miðborgina á sumrin að góðu kunnur og var jafnan kallaður Riddari götunnar. Hann hafði vakið athygli fyrir það að hafa spilað úrvals harmonikkutónlist fyrir vegfarendur Laugavegs og Austurstrætis á góðviðrisdögum síðustu sumra.

Lögreglan mun senda frá sér fréttatilkynningu síðdegis varðandi málið.


Tengdar fréttir

Í haldi fyrir árásina á Guðjón

Lögregla handtók í gærmorgun mann á þrítugsaldri sem grunaður er um að hafa ráðist á Guðjón Guðjónsson um þarsíðustu helgi, handleggsbrotið hann og rænt af honum bílnum.

Riddari götunnar lést eftir árás

Hinn 76 ára gamli Guðjón Guðjónsson sem lést eftir að ráðist var á hann og bíl hans stolið var áberandi á meðal þeirra sem létu sjá sig í miðborginni á sumrin. Hann hafði vakið athygli fyrir það að hafa spilað úrvals harmonikkutónlist fyrir vegfarendur Laugavegs og Austurstrætis á góðviðrisdögum síðustu sumra.

Yfirheyrður vegna árásar á Guðjón Guðjónsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu yfirheyrðu í gærkvöldi karlmann, grunaðan um að hafa ráðist á Guðjón Guðjónsson um þar síðustu helgi, handleggsbrotið hann og rænt af honum bílnum. Guðjón fannst látinn á heimili sínu fyrir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×