Innlent

Fjölskyldufjör á Einni með öllu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Mynd/Benedikt H. Sigurgeirsson
Mynd/Benedikt H. Sigurgeirsson
Fjölskylduhátíðin Ein með öllu á Akureyri sem hófst formlega á fimmtudag hefur farið vel af stað.

Pétur Guðjónsson, talsmaður hátíðarinnar, segir gott líf hafa verið í bænum í gær. „Gærkvöldið var mjög skemmtilegt. Það var fjölskyldustemning og ekki mikil ölvun.“ Hann segir fólki almennt finnast andrúmsloftið gott á hátíðinni. „Ég gæti ekki beðið um neitt betra. Hér er líf og fjör en samt þægilegt, spennulaust og ekkert neikvætt.“

Þetta fer saman við upplýsingar frá lögreglu sem að segir nóttina hafa verið rólega. Pétur segist ekki hafa neinar tölur yfir hversu margir gestir séu á hátíðinni. „Þetta er óútreiknanleg hátíð þar sem að margir brottfluttir koma aftur og ættingjar þeirra sem búa hér. Því er ekki hægt að mæla fjöldann á tjaldstæðum.“

Dagskrá gærdagsins var þétt og skemmtu ungir sem aldnir sér konunglega eins og sjá má á myndum sem ljósmyndari 365 náði af kátum gestum í gær.

Kirkjutröppuhlaup fór fram síðdegis, Leikhópurinn Lotta skemmti með nýja söngleik sínum Gilitrutt, boðið var upp á skautadiskó í Skautahöllinni og Óskalagatónleikarnir sem föst hefð er fyrir að halda um Verzlunarmannahelgi voru haldnir í Akureyrarkirkju.

Um kvöldið voru tónleikar í Skátagilinu þar sem fram komu meðal annars hljómsveitirnar Úlfur úlfur og Sísí Ey. Dagskrá lauk klukkan ellefu í gærkvöld.

Það er þó eitt sem hefði getað farið betur að mati Péturs. „Veðrið mætti vera betra. Þú heyrir þetta ekki oft frá Akureyringi,“ segir hann og hlær. „Það rigndi í nótt en þó ekkert í gær.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×