Innlent

Frábært veður á Bræðslunni

Boði Logason skrifar
Áskell Heiðar Ásgeirsson, er bræðslustjóri í ár, ásamt bróður sínum Magna Ásgeirssyni tónlistarmanni.
Áskell Heiðar Ásgeirsson, er bræðslustjóri í ár, ásamt bróður sínum Magna Ásgeirssyni tónlistarmanni.
Tónlistarhátíðin Bræðslan fer fram í níunda skipti á Borgarfirði Eystri í kvöld. Mikil aðsókn er á hátíðina enda seldist upp á hana á tveimur sólarhringum.

Fólk byrjaði að streyma austur á fimmtudag þar sem Jónas Sigurðsson hitaði upp mannskapinn með tónleikum ásamt Lúðrasveit Þorlákshafnar. Í gær hélt svo Magni Ásgeirsson tónleika ásamt góðum gestum.

Og í kvöld er aðalkvöldið, Bræðslan sjálf þar sem John Grant, Bjartmar Guðlaugsson, Mannakorn, Magni og Ásgeir Trausti koma fram.

Áskell Heiðar Ásgeirsson er bræðslustjóri í ár.

„Við seldum alla miða upp á tveimur sólarhringum í maí í forsölu, við erum búnir að vita það lengi að það yrði uppselt. En það er auðvitað mikið af fólki sem kemur hingað til hitta vini og vandamenn og upplifa stemminguna jafnvel þó það sé ekki með miða á hátíðina,“ segir Áskell.

Hvað eru gestir hátíðarinnar margir?

„Við seljum 850 miða inn í þetta hús, það er það sem húsið tekur. Við horfum auðvitað til þess að það eru takmörk fyrir því hvað 150 manna bæjarfélag getur tekið á móti mörgum í einu. Við viljum alls ekki taka við of mörgu, viljum frekar að upplifunin sé góð fyrir þá sem koma.“

Tónleikarnir fara fram í fjörutíu ára gamallari síldarbræðslu í bænum, sem er orðin vel ryðguð og sjúskuð að sögn Áskels Heiðars.

„Bræðslan er Bræðslan og hún verður að vera inni í bræðslunni, það liggur fyrir. En auðvitað fer mikill hluti af þessari gleði fram utandyra. Það eru flestir hér sem búa í tjöldum. Það er grillað hér í hverjum húsagarði og auðvitað eru gítarar á lofti hér og þar, þannig mikið af þessari gleði fer fram utandyra.“

Og veðrið leikur við Austfirðinga, eins og aðra landsmenn.

„Það er búið að vera hér 20 stiga hiti nánast í mánuð. Það var smá þoka í gær, en mér sýnist hún vera að fara og það verður bara æðislegt veður hér í dag sýnist mér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×