Enski boltinn

Tevez: Ég vil vera áfram hjá City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Carlos Tevez, Argentínumaðurinn snjalli hjá Manchester City, hefur lýst því yfir að hann vilji vera áfram í herbúðum liðsins þrátt fyrir allt það sem á undan hefur gengið.

Eins og flestir vita lét Tevez sig hverfa í nokkra mánuði eftir að hafa verið settur út í kuldann af Roberto Mancini, stjóra City. Tevez hafði áður neitað að koma inn á sem varamaður í leik gegn Bayern München í Meistaradeildinni.

En Tevez sneri aftur eftir áramót og sættist við Mancini. Hann hefur verið í byrjunarliðinu í síðustu þremur leikjum City og skoraði á dögunum þrennu í stórsigri liðsins á Norwich.

„Félagið hefur verið að byggja eitthvað mjög sérstakt upp á síðust árum," sagði Tevez. „Það verkefni og draumsýn félagsins var það sem heillaði mig fyrst við félagið."

„Ég hef verið með frá upphafi og deili framtíðarsýn Mansour sjeiks [eiganda City]. Hann hefur verið mér mjög góður og ég vil endurgjalda hans tryggð við mig. Ég vil vera hér eins lengi og þarf til að láta verkefnið ganga upp."

„Ég er metnaðarfullur einstaklingur. Ég vil leggja mikið á mig og vinna titla með City. Það er það eina sem skiptir mig máli - bæði sem leikmaður og einstaklingur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×