Erlent

Skattur auðmanna í 75 prósent

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra Frakklands kynntu nýju fjárlögin.
Forsætisráðherra og fjármálaráðherra Frakklands kynntu nýju fjárlögin. Fréttablaðið/AP
Jean-Marc Ayrault, forsætisráðherra Frakklands, segir að nýr 75 % hátekjuskattur verði lagður á þá sem hafa meira en milljón evrur í árstekjur. Það samsvarar um það bil 160 milljónum króna, eða rúmlega þrettán milljónum í mánaðartekjur.

Þessi 75% skattur á að gilda í tvö ár, en ekki er reiknað með að hann skili miklum tekjum í ríkissjóð heldur hafi hann fyrst og fremst táknrænt gildi.

Ayrault segir að 90% skattgreiðenda verði hlíft, en skattur hækki einungis á tekjuhæstu tíu prósentin.

Hann kynnti í gær fjárlög næsta árs, sem hann segir vera „baráttufjárlög“, því með þeim eigi að snúa við skuldasöfnun ríkisins og hefja niðurgreiðslu skuldanna. Þannig megi draga úr atvinnuleysi og ýta af stað hagvexti.

Gagnrýnendur segja hins vegar að ekki sé í þessum fjárlögum að finna neinar umbætur í ríkisfjármálum eða hvata fyrir atvinnulífið. Hagvöxtur fari því ekki í gang og atvinnuleysi muni ekki minnka.

Enginn hagvöxtur hefur verið í Frakklandi þrjá ársfjórðunga í röð. Atvinnuleysi er nú í 10,2%. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×