Erlent

Verksmiðjan hafði misst starfsleyfið

Guðsteinn skrifar
Meira en hundrað manns brunnu inni í þessari verksmiðju þegar eldur kom þar upp 24. nóvember.FRÉTTABLAÐIÐ/AP
Meira en hundrað manns brunnu inni í þessari verksmiðju þegar eldur kom þar upp 24. nóvember.FRÉTTABLAÐIÐ/AP
Fataverksmiðjan í Bangladess sem brann í lok nóvember með þeim afleiðingum að 112 starfsmenn létu lífið hafði misst starfsleyfið í júní og hefði átt að vera lokuð.

Slökkvilið landsins hafði neitað að endurnýja starfsleyfið vegna brunahættu. Eigandi verksmiðjunnar, Delwar Hossain, hefur viðurkennt að einungis þrjár af átta hæðum verksmiðjunnar hafi verið löglegar. Þrátt fyrir það var hann að láta reisa níundu hæðina ofan á hinar.

Stjórnvöld vissu vel af þessu en létu það óátalið að verksmiðjan starfaði áfram frekar en að takast á við eina öflugustu iðngrein landsins, fataiðnaðinn.

„Það ætti að loka þessum verksmiðjum, en það er ekki auðvelt verk,“ segir Kalpona Akter hjá verkalýðssamtökum sem berjast fyrir réttindum starfsfólks í fataverksmiðjum. „Hver sá góði opinberi eftirlitsmaður sem vill grípa til harðra aðgerða gegn óhlýðnum verksmiðjum af þessu tagi yrði rekinn úr embætti. Hver vill taka þá áhættu?“

Hún segir að Tazreen-verksmiðjan, sem brann 24. nóvember, hafi engan veginn verið sú eina í landinu sem svo er ástatt um. Líklega vanti starfsleyfi fyrir um helming þeirra 4.000 fataverksmiðja, sem starfræktar eru í Bangladess. Í þessum verksmiðjum eru framleidd föt með þekktum vestrænum vörumerkjum, ætluð til sölu í verslunum á Vesturlöndum. Launin í verksmiðjunum eru lág og þar af leiðandi er kostnaðurinn við framleiðsluna mun minni en ef fötin væru saumuð á Vesturlöndum. Þess vegna er hægt að selja þau á lægra verði fyrir vikið handa neytendum á Vesturlöndum.

Eigandinn Hossain stofnaði fyrirtæki sitt árið 2004 og rekur nú tugi verksmiðja sem svipaðar eru þeirri sem brann. Margir aðrir eigendur slíkra verksmiðja í Bangladess eru þingmenn eða sitja í öðrum mikilvægum embættum í landinu.

Fataiðnaðurinn er það öflugur og stórtækur að sérstök lögregludeild hefur verið stofnuð í Bangladess til þess eins að sjá um að starfsemi þessara verksmiðja gangi snurðulaust fyrir sig.

Baráttufólk fyrir réttindum verkamanna í þessum verksmiðjum hefur ítrekað upplýst stórfyrirtæki á Vesturlöndum, sem láta sauma föt í þeim, um aðstæðurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×