Innlent

Dregið úr fjárframlögum til ættleiðinga á næsta ári

Flest börn sem hingað voru ættleidd í fyrra komu frá Kína. Íslensk ættleiðing segir ættleiðingarmál nú afgangsmál. fréttablaðið/ap
Flest börn sem hingað voru ættleidd í fyrra komu frá Kína. Íslensk ættleiðing segir ættleiðingarmál nú afgangsmál. fréttablaðið/ap

Fjárframlög til Íslenskrar ættleiðingar verða hundrað þúsund krónum minni á næsta ári en í ár, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í gær. Gert er ráð fyrir því að Íslensk ættleiðing fái 9,1 milljón króna á fjárlögum en upphæðin í ár var 9,2 milljónir.

„Félagið þarf 44 milljónir til viðbótar við núverandi tekjur til að geta sinnt þeim verkefnum sem lög og reglugerðir leggja því á herðar. Um það er ekki ágreiningur og það hefur verið viðurkennt af hálfu ráðuneytisins að félagið geti ekki farið að lögum ef því verða ekki tryggðar þessar tekjur," segir Hörður Svavarsson, formaður Íslenskrar ættleiðingar.

Hann segir ættleiðingarfélagið hafa boðið stjórnvöldum að hækkanir til þess kæmu í skrefum, um fimmtán milljónir kæmu í fjáraukalögum þessa árs, fimmtán milljónir til viðbótar á fjárlögum 2013 og lokaskrefið ári síðar. „Félagið hefur fengið vilyrði fyrir því að lagt verði til framlag sem samsvarar fyrsta skrefinu á fjáraukalögum í haust. Innanríkisráðherra tjáði forsvarsmönnum ættleiðingarfélagins einnig að ráðuneytið gæti ekki lagt til aukna hækkun á næsta ári því það kæmi niður á öðrum fjársveltum málaflokkum sem tilheyra þessu viðamikla ráðuneyti."

Að sögn Harðar hafa forsvarsmenn félagsins sagt að tekjur þurfi til að mæta öllum verkefnum sem félaginu eru lagðar á herðar, ekki bara sumum. „Við þurfum því ekki hluta af tekjunum sem standa undir verkefnunum. Engum dettur í hug að bora hálf jarðgöng gegnum Vaðlaheiði," segir Hörður.

Að vissu leyti er ánægjulegt að átta sig á því að félagið hafi náð eyrum ráðamanna með þessari röksemdafærslu, segir Hörður. „Stjórnvöld hafa áttað sig á því að það er betur heima setið en af stað farið, ef það á bara að fara hálfa leið. Tillögur að framlagi til Íslenskrar ættleiðingar í nýju fjárlagafrumvarpi eru því rökrétt niðurstaða fjármálaráðherra sem forgangsraðar þannig að ættleiðingar eru afgangsmál."

Átján börn voru ættleidd til Íslands frá útlöndum á síðasta ári, flest frá Kína. Íslensk ættleiðing er eina félagið sem hefur umsjón með ættleiðingum erlendis frá.
thorunn@frettabladid.isAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.