Innlent

Vilja hert eftirlit með dýralyfjagjöf og búfjárafurðum

Rafræn skráning verður tekin upp til að uppfylla reglur um eftirlit. Þegar hefur slík skráning verið tekin upp fyrir nautgripi og hesta. fréttablaðið/stefán
Rafræn skráning verður tekin upp til að uppfylla reglur um eftirlit. Þegar hefur slík skráning verið tekin upp fyrir nautgripi og hesta. fréttablaðið/stefán
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) telur að herða þurfi opinbert eftirlit á Íslandi til að tryggja að kjöt og mjólk innihaldi ekki efnaleifar af dýralyfjum. Yfirdýralæknir segir niðurstöður ESA frekar hastarlegar og sumar byggðar á misskilningi, þó sé þar að finna gagnlegar ábendingar sem unnið verði úr. Nýtt rafrænt skráningarkerfi með skráningu dýralyfja og lyfjasölu dýralækna er í burðarliðnum, en það er forsenda þess að unnt verði að sinna lögboðnu eftirliti.

ESA hefur eftirlit með framkvæmd evrópsku matvælalöggjafarinnar hér á landi. Af því tilefni komu fulltrúar stofnunarinnar í eftirlitsheimsókn í desember 2011 til að fara yfir framkvæmd á eftirliti með efnaleifum í dýraafurðum, með sérstakri áherslu á eftirlit með notkun dýralyfja.

Í nýútkominni skýrslu, byggðri á heimsókninni, eru gerðar nokkrar athugasemdir við eftirlitið hér á landi. Helstar eru að dýralæknar gefi ekki út lyfseðla og bændur skorti því upplýsingar um biðtíma frá lyfjagjöf til slátrunar. Eins að sláturhús fái ekki upplýsingar til að tryggja að dýrum, sem hafa verið gefin lyf, sé ekki slátrað áður en biðtími sé liðinn. Eins segir: „stór hluti dýralækna hefur ekki sætt neinu eftirliti stjórnvalda.“

Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, segir hættuna, sem felst í því að lyfjaleifar berist á disk neytenda, helst vera fyrir þá sem eru með ofnæmi fyrir lyfjum, til dæmis pensilíni. Hins vegar séu niðurstöður ESA hastarlegar og sumar hverjar byggðar á misskilningi. „Til dæmis skortir bændur ekki skriflegar upplýsingar um biðtíma. Allar upplýsingar eru skráðar á lyfjaglösin svo bændur vita nákvæmlega hvernig á að fara með þau.“

Halldór segir það rétt að dýraeigendum beri skylda til að tryggja að dýr séu ekki send í sláturhús með lyfjaleifar. Hins vegar geti mistök alltaf átt sér stað. Nýtt skráningarkerfi, HEILSA, muni vonandi koma í veg fyrir þau. Upplýsingar séu skráðar í kerfið og fari yfir í heilsukort gripa sem fylgja þeim í sláturhús. Kerfið hefur þegar verið innleitt fyrir nautgripi og hross. Fundist hafa gripir eftir komu í sláturhús sem voru með lyfjaleifar þegar viðkomandi gögn sem fylgdu þeim voru skoðuð. Afurðum þeirra var hent.

Hvað mjólkina varðar segir Halldór að virkt eftirlit sé með allri mjólk sem berist til afurðastöðvanna og því sem ekki standist skoðun sé hellt niður. Matvælastofnun og Lyfjastofnun hafa þegar hafið úrvinnslu ábendinga ESA.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×