Leik lokið: Þróttur - Stjarnan 4-2 | Klárar í ein­vígi við FH

Sindri Sverrisson skrifar
Álfhildur Rósa Kjartansdóttir er fyrirliði Þróttara.
Álfhildur Rósa Kjartansdóttir er fyrirliði Þróttara. vísir/Diego

Þróttarar virðast tilbúnir í harða baráttu við FH um Evrópusæti í efri hluta Bestu deildar kvenna í fótbolta, miðað við 4-2 sigurinn gegn Stjörnunni í dag í síðustu umferðinni fyrir skiptingu deildarinnar.

Sigurinn breytir því ekki að Þróttur er í 3. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir FH, og nú er ljóst að það verður FH sem fær heimaleik í uppgjöri liðanna í lokaumferðunum.

Stjarnan var örugg um sæti í efri hlutanum fyrir leik í kvöld og hefur ekki að miklu að keppa, er með 25 stig og nú ellefu stigum á eftir Þrótti fyrir síðustu fimm umferðirnar.

Fyrri hálfleikurinn í Laugardalnum í dag var einn sá fjörugasti á þessari leiktíð. Frítt á völlinn í boði Hagkaupa og leikmenn vildu ekki láta sitt eftir liggja heldur buðu upp á markaveislu.

Eftir tuttugu mínútna leik átti Sæunn Björnsdóttir stórkostlega stungusendingu í gegnum miðja vörn Stjörnunnar á Sierra Lelii sem var alein gegn markverði og skoraði af yfirvegnum, í þriðja leiknum í röð.

Skoruðu beint upp úr miðju

Þróttarar náðu hins vegar ekki að snerta boltann aftur áður en Stjarnan hafði jafnað metin nokkrum sekúndum síðar, þegar Birna Jóhannsdóttir skoraði eftir góða sendingu Snædísar Maríu Jörundsdóttur út í teiginn.

Maður hefði haldið að þetta væri kjaftshögg fyrir heimakonur en þær svöruðu með tveimur mörkum á næstu tíu mínútum.

Sæunn kom Þrótti aftur yfir með viðstöðulausu skoti úr teignum, eftir frábæra fyrirgjöf Mistar Funadóttur af vinstri kantinum. Sæunn vann svo boltann úti við hornfána og kom honum á Þórdísi Evu Ágústsdóttur. Fyrirgjöf hennar fór beint á koll Unnar Dóru Bergsdóttur sem skoraði með góðum skalla.

Unnur Dóra með tvennu

Snædís María sá hins vegar til þess að Stjarnan væri enn á góðu lífi í hálfleik þegar hún minnkaði muninn í 3-2 á 38. mínútu, eftir undirbúning Úlfu Dísar Kreye Úlfarsdóttur.

Úlfa Dís slapp svo ein gegn markverði í upphafi seinni hálfleiks en var dæmd rangstæð. Það stóð mjög tæpt. Þess í stað jók Unnur Dóra muninn aftur í tvö mörk með marki af stuttu færi, eftir frábæra fyrirgjöf frá Sierru.

Leikurinn var áfram opinn og fjörugur en fleiri mörk voru ekki skoruð. Varamaðurinn Esther Rós Arnarsdóttir var þó óhemju nálægt því að minnka muninn í lokin en Jelena Tinna Kujundzic náði að verja skot hennar með skalla, nánast á marklínu.

Greinin er í vinnslu...

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira