Innlent

Telja virkjanir óásættanlegar

Því er fagnað að allmörg verðmæt svæði hafi samkvæmt fyrirliggjandi þingsályktunartillögu verið sett í verndarflokk, en lýst yfir áhyggjum vegna virkjana á Reykjanesfólkvangi.
Mynd/Landvernd
Því er fagnað að allmörg verðmæt svæði hafi samkvæmt fyrirliggjandi þingsályktunartillögu verið sett í verndarflokk, en lýst yfir áhyggjum vegna virkjana á Reykjanesfólkvangi. Mynd/Landvernd
Virkjanir í Reykjanesfólkvangi eru óásættanlegar. Þetta er ályktun Náttúruverndarþings, sem fram fór á laugardag. Með virkjunum í Reykjanesfólk-vangi þykir meðal annars gengið gegn áformum um að vernda fólkvanginn og stofna þar eldfjallaþjóðgarð, sem náttúruverndarhreyfingin og Samtök ferðaþjónustunnar hafi áður bent á að rík tækifæri felist í.

Almennt eru alvarlegar athugasemdir gerðar við tillögur um Reykjanesskaga í þingsályktunartillögu um rammaáætlun, þar sem flest jarðhitasvæði frá Krísuvík og vestur úr eru sett í nýtingarflokk. Minnt er á að jarðfræði Reykjanesskaga sé einstök á heimsvísu og gildi þess að upplifa lítt snortna náttúru á stórum svæðum í næsta nágrenni höfuðborgarinnar sé hátt.

Ekki þykir þó allt neikvætt í þingsályktunartillögunni. Er því meðal annars fagnað að allmörg verðmæt svæði, sem löngu hafi verið tímabært að friðlýsa, hafi verið sett í verndarflokk samkvæmt tillögunni.

Nokkur önnur svæði, þar á meðal tengd Neðri-Þjórsá, Skrokk-alda og Hágöngur hafi réttilega verið færð úr nýtingu í biðflokk. Leggur þingið ríka áherslu á að miðhálendi Íslands í heild verði um alla framtíð friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum, eins og ríkur stuðningur sé við hjá stórum hluta landsmanna. - hhs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×