Innlent

Hefur fengið frábærar viðtökur

Samfélagsátakið Blái Naglinn hefur gengið vonum framar frá því að það hófst um síðustu mánaðamót. Það segir Jóhannes Valgeir Reynisson, upphafsmaður verkefnisins, en upphaf árverknis- og vitundarátaks um blöðruhálskirtilskrabbamein markaðist af frumsýningu heimildamyndar þar sem sagt var frá baráttu Jóhannesar við sjúkdóminn.

„Við fjölskyldan höfum fengið rosalega mikil og góð viðbrögð síðan myndin var sýnd. Það hefur komið mér á óvart hversu margir hafa lýst yfir ánægju með að við höfum vakið umræðu um þessi mál."

Samhliða átakinu efndi Jóhannes til söfnunar til styrktar tækjakaupum fyrir Landspítalann. Sölufólk um allt land hefur selt Bláa nagla til að fjármagna kaup á línuhraðli, sem er tæki sem notað er í geislunarmeðferð krabbameinssjúklinga.

Jóhannes segir að salan hafi víðast hvar gengið mjög vel. „Sölufólkið okkar segir móttökur almennings hafa verið frábærar. Fólk veit greinilega um hvað málið snýst og er tilbúið að styrkja málefnið."

Söfnunarátakinu lýkur á fimmtudag og segir Jóhannes að enn sé nóg til af nöglum til að selja, og hann hvetur áhugasama til að hafa samband. Til dæmis sé hægt að bæta við fólki á Suðurlandi og Austfjörðum.

„Mitt markmið með þessu öllu er fyrst og fremst að upplýsa fólk um hvað þetta mein er algengt og mun meira feimnismál en flestir gera sér grein fyrir," segir Jóhannes. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×