Innlent

Gangaslagur kostar ríkið 9 milljónir

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Slagur Gangaslagur hefur ekki verið haldinn í MR eftir að þar varð alvarlegt slys vorið 2009.
Slagur Gangaslagur hefur ekki verið haldinn í MR eftir að þar varð alvarlegt slys vorið 2009. Fréttablaðið/Hari
Íslenska ríkið þarf að greiða fyrrverandi nemanda Menntaskólans í Reykjavík 8,9 milljónir króna með vöxtum vegna meiðsla sem hann varð fyrir í gangaslag í skólanum í apríl 2009. Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í gær að slys hafi áður hlotist af slagnum sem hefð var fyrir í skólanum.

Slagurinn var aflagður eftir þetta slys, en í ákæru eru stjórnendur hans átaldir fyrir að hafa látið hjá líða að gæta nægilega öryggis nemenda og fyrir að hafa ekki kallað til sjúkrabifreið og lögreglu þegar slysið varð.

Gangaslagurinn snerist um að útskriftarárgangur reyndi að hringja bjöllu við enda gangs á meðan ungmenni í öðrum árgöngum reyndu að koma í veg fyrir hringingu.

„Verður að meta rektor skólans til gáleysis að hafa ekki stöðvað slaginn þegar nemendur fóru ekki eftir þeim reglum er settar höfðu verið og að hafa leyft nemendum úr 6. bekk að stökkva út yfir höfuð nemenda sem á gólfi stóðu,“ segir í niðurstöðu dómsins.

Maðurinn var tvítugur og nemandi í sjötta bekk skólans þegar slysið varð. Hann fékk þungt högg á höfuðið, sáran verk í háls og bak og hellu fyrir eyrun. Á slysadeild kom í ljós að hann var tvíbrotinn á fyrsta hálslið og liðband rifið. Þurfti hann að nota hálskraga í rúma fjóra mánuði og var óvinnufær allt sumarið.

Maðurinn var byrjaður í stúdentsprófum en fékk þau metin. Varanleg örorka hans vegna slyssins er metin 12 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×