Innlent

Ein sprunga er vísbending um fleiri

Hér getur á að líta útkall þegar kona féll ofan í fimm til sex metra djúpa sprungu í Heiðmörk í marsbyrjun fyrir tveimur árum. Á vefnum safetravel.is er að finna margvíslegar upplýsingar um hvernig haga beri ferðalögum þannig að öryggi allra sé tryggt.
Hér getur á að líta útkall þegar kona féll ofan í fimm til sex metra djúpa sprungu í Heiðmörk í marsbyrjun fyrir tveimur árum. Á vefnum safetravel.is er að finna margvíslegar upplýsingar um hvernig haga beri ferðalögum þannig að öryggi allra sé tryggt. Fréttablaðið/Vilhelm
Góður undirbúningur er lykilatriði til að tryggja öryggi ferðalanga. Bleyta í veðurkortum helgarinnar veldur björgunarsveitum ákveðnum áhyggjum. Landsbjörg er ekki með sérstakan viðbúnað vegna páskanna. Sveitir eru ávallt til reiðu.

„Við erum svo sem ekki með meiri viðbúnað en vanalega um páskahelgina, því við erum alltaf tilbúin að fara af stað ef á þarf að halda,“ segir Jónas Guðmundsson, verkefnisstjóri Safetravel hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu. Hann segir þó líklegt að líkt og áður leggi margir land undir fót um þessa helgi.

„En svo eru sveitir okkar líka margar á ferðalögum um páskana, þannig að stundum gætum við verið nær en ella,“ bætir hann við við. Hvað varðar ferðaveðrið um helgina segir Jónas bleytu í kortunum valda ákveðnum áhyggjum. „Snjór er nú þegar farinn að blotna á hálendi og víðar,“ segir hann og bendir á að bæði kunni fólki þá að vera hættara við að festa bíla sína og eins sé möguleiki á að snjóflóðahætta aukist á vissum svæðum.

Jónas segir Landsbjörgu og Safetravel hins vegar leggja mikla áherslu á gildi fyrirbyggjandi aðgerða. „Það eru þessi fjögur til fimm atriði sem þarf að hafa í huga áður en haldið er af stað.“

Í fyrsta lagi segir hann að kanna þurfi aðstæður á áfangastað, þar með talið veðurspá, og haga búnaði í samræmi við það. Síðan þurfi líka að gæta að því að vera með fjarskiptatæki sem virka. „Það ekki hægt að reiða sig á farsímann eingöngu, á sumum svæðum þarf talstöð eða gervihnattasíma, eða eitthvað slíkt. Komi eitthvað upp á þarf maður að geta kallað eftir aðstoð.“

Í þriðja lagi segir Jónas nauðsynlegt að vera með réttan búnað með sér og kunna að nota hann. „Til dæmis má nefna fólk sem ferðast á jökla, en það gera margir um páskana. Fari svo að bíll missi dekk í sprungu þá þarf maður að geta fest sig við bílinn áður en út úr honum er farið.“ Jónas segir nokkur dæmi um banaslys þar sem fólk hefur dottið í sprungur við slíkar aðstæður. „Ef dekk er komið í sprungu, þá er ljóst að sprungur eru á staðnum.“

Sömuleiðis segir Jónas nauðsynlegt að hafa með öryggisbúnað, sjúkrabúnað, teppi og nesti. Hér sé allra veðra von og fólk hafi jafnvel lent í því að festast í bílum sínum tímunum saman úti á þjóðvegi, hvað þá í óbyggðum.

„Síðast en ekki síst er svo mjög mikilvægt að skilja eftir ferðaáætlun,“ segir Jónas og bendir á að það megi gera á vefnum safetravel.is. Liggi fyrir áætlun sé hægt að koma í veg fyrir tímaeyðslu við leit á röngum stað. olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×