Enski boltinn

Gleymi þessu marki aldrei

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu á móti West Brom.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu á móti West Brom. Mynd/Nordic Photos/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson opnaði markareikning sinn í ensku úrvalsdeildinni um helgina og var maðurinn á bak við sjaldgæfan útisigur hjá Swansea City. Swansea lenti undir í leiknum en Gylfi skoraði jöfnunarmarkið og lagði síðan upp sigurmarkið fjórum mínútum síðar.

Gylfi átti enn einn stórleikinn og hefur heldur betur slegið í gegn með velska liðinu. Hann hefur komið við sögu í fjórum leikjum og hefur lagt upp mark í þremur þeirra.

„Ég held að þetta sé einn eftirminnilegasti leikurinn á ferlinum ekki síst þar sem ég náði að skora mitt fyrsta úrvalsdeildarmark. Maður á aldrei eftir að gleyma því. Það fylgir því mjög góð tilfinning og ég held að ég sé núna búinn að skora í öllum deildum á Englandi," segir Gylfi en hann fékk strax það hlutverk að taka allar horn- og aukaspyrnur liðsins og var nálægt því að skora beint úr aukaspyrnu.

„Hún var aðeins of utarlega og ég náði ekki að snúa honum nægilega mikið. Ég verð bara að setja hann í næsta leik. Maður verður að koma með eitt mark úr aukaspyrnu áður en tímabilið klárast," segir Gylfi.

„Swansea spilar mjög góðan fótbolta og það hefur gengið vel hjá mér. Þetta er spilandi lið og það er frekar auðvelt að detta inn í þetta enda með góða leikmenn í kringum mig," segir Gylfi og bætir við. „Ég þekkti þjálfarann og vissi hvernig hann vill spila og svo var ég líka búinn að horfa á nokkra leiki með þeim," segir Gylfi.

„Það er mjög gaman að fá að spila fótbolta á nýjan leik. Ég var búinn að vera mjög lengi á bekknum í Þýskalandi og hafði ekki fengið mikið að spila þar. Það fylgir því mjög góð tilfinning að vera farinn að spila í hverri viku."

Gylfi lagði líka upp sigurmark á móti Arsenal og næstum því sigurmark gegn Chelsea en Chelsea náði að jafna metin undir lokin.

Gylfi fékk að heyra það frá gamla þjálfaranum í þýsku blöðunum um helgina sem sagði að Gylfi hefði ekki haft áhuga á því að spila fyrir Hoffenheim.

„Þetta voru frekar skrýtinn ummæli því það er hann sem velur liðið og það var hann sem var ekki að leyfa mér að spila. Ég var alltaf til í að spila," segir Gylfi.

„Ég fór af því að ég vildi bara fá að spila fótbolta því það er það sem mér finnst skemmtilegast að gera. Það var orðið mjög leiðinlegt að sitja á bekknum alla laugardaga. Það skiptir mig líka litlu máli hvað hann er að segja í þýsku blöðunum," segir Gylfi sem vill ekkert ræða hvað tekur við í sumar.

„Eins og er þá ætla ég bara að einbeita mér að því að spila vel fyrir Swansea og hjálpa liðinu að halda sér uppi í deildinni," segir Gylfi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×