Fótbolti

Marki Zlatans ekki bætt inn á lista FIFA yfir bestu mörk ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic fagnar í gær.
Zlatan Ibrahimovic fagnar í gær. Mynd/AFP
Sænski knattspyrnusnillingurinn Zlatan Ibrahimovic skoraði frábært mark þegar hann innsiglaði fernu sína á móti Englendingum í gær. Eftir leikinn voru knattspyrnuspekingar og knattspyrnuáhugamenn ekki að velta því fyrir sér hvort þetta væri besta mark ársins heldur frekar að ræða það hvort að það hafi verið skorað fallegra mark í knattspyrnusögunni.

Fyrr um daginn hafði FIFA gefið út lista með þeim tíu mörkum sem koma til greina sem besta mark ársins 2012 og eins og gefur að skilja var mark Zlatans ekki þar á meðal. Það var strax sett pressa á að bæta marki Zlatans við á listann.

FIFA lokaði hinsvegar strax á það því sambandið vill ekki bæta marki Zlatans við á listann þar sem að kosningin er þegar hafin og fullt af fólki er búið að gefa einu af þessum tíu mörkum atkvæði sitt. Markið kemur hinsvegar til greina þegar verðlaunin verða afhent á næsta ári.

Það er hægt að kjósa um flottasta mark ársins inn á heimasíðu FIFA eða með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×