Fótbolti

AZ Alkmaar sló Ajax út úr hollenska bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Krakkarnir áttu stúkuna.
Krakkarnir áttu stúkuna. Mynd/Nordic Photos/Getty
Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í AZ Alkmaar eru komnir áfram í átta liða úrslit hollenska bikarsins eftir 3-2 sigur á Ajax í dag. Leikurinn var spilaður að nýju eftir að leikmenn AZ yfirgáfu völlinn í kjölfar árásar á markvörð liðsins þegar liðin mættust 21. desember síðastliðinn.

Jóhann Berg Guðmundsson sat á varamannabekk AZ Alkmaar allan leikinn og Kolbeinn Sigþórsson spilaði ekki með Ajax vegna meiðsla.

Leikurinn átti fyrst að fara fram fyrir luktum dyrum en hollenska sambandið gaf síðan leyfi fyrir því að börn mættu koma á leikinn. Tuttugu þúsund krakkar þáðu boðið og hvöttu leikmenn liðanna áfram en leikurinn fór fram klukkan hálf þrjú að hollenskum tíma.

Siem de Jong kom Ajax í 1-0 á 10. mínútu eftir frábæra sendingu frá Dananum Christian Eriksen en Maarten Martens jafnaði metin fyrir AZ fjórtán mínútum síðar. Charlison Benschop lagði upp fyrsta markið og skoraði síðan það síðara sjálfur á 32. mínútu.

Siem de Jong jafnaði metin í 2-2 á 37. mínútu eftir varnarmistök en Rasmus Elm tryggði AZ sigurinn með marki út vítaspyrnu á 55. mínútu. Vítið var dæmt þegar varnarmaður Ajax handlék boltann í teignum.

AZ Alkmaar mætir áhugamannaliðinu GVVV Veenendaal í átta liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×