Fótbolti

Eigandi knattspyrnufélags segir íþróttina vonlausa

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Palmer er einn auðugasti maður Ástralíu.
Palmer er einn auðugasti maður Ástralíu. Nordic Photos / Getty Images
Stuðningsmenn knattspyrnufélaga velta reglulega þeirri spurningu fyrir sér hversu miklir knattspyrnuunnendur ríkir eigendur félaga þeirra eru. Clive Palmer, eigandi Gold Coast United í áströlsku deildinni, tók af allan vafa um helgina.

Clive Palmer, milljónamæringur úr námuiðnaðinum í Ástralíu, kom Gold Coast United á koppinn árið 2008. Liðinu vegnaði þokkalega fyrstu árin, hafnaði í þriðja og fjórða sæti deildarinnar, en síðan hefur sigið á ógæfuhliðina.

Liðið situr um þessar mundir í botnsæti áströlsku deildarinnar með fimmtán stig eftir 21 umferð. Þá er aðsókn á leiki liðsins í lágmarki. Aðeins 1723 mættu á heimaleik liðsins gegn Adelaide United fyrir tveimur vikum.

„Ég hef ekki einu sinni gaman af íþróttinni. Þetta er vonlaus íþrótt. Ruðningur er miklu betri íþrótt," sagði Palmer í viðtali við dagblað í Brisbane um helgina.

Ummæli Palmer hafa vakið mikla athygli enda á knattspyrna erfitt uppdráttar í Ástralíu þar sem ruðningur og áströlsk knattspyrna njóta mikilla vinsælda.

Ben Buckley, framkvæmdastjóri ástralska knattspyrnusambandsins, hefur gagnrýnt ummælin harðlega.

„Við buðum Clive velkominn í knattspyrnuumhverfið og vorum ánægð með fjárfestingu hans. Það skiptir ekki máli hve pirraður hann er um þátttöku sína, ummælin eru langt yfir strikið," sagði Buckley sem minnti á ábyrgð hans gagnvart kollegum sínum og öðrum fjárfestum í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×