Lífið

Sagði sögur af Hemma Hreiðars

Vel fór á með Þorkatli Gunnari, Henry Birgi og knattspyrnustjóranum Avram Grant í Serbíu.
Vel fór á með Þorkatli Gunnari, Henry Birgi og knattspyrnustjóranum Avram Grant í Serbíu. Mynd/Einar Örn jónsson
„Við hittum hann og toguðum hann í létta myndatöku,“ segir Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, íþróttafréttamaður Sjónvarpsins.

Hann og kollegar hans, Einar Örn Jónsson og Henry Birgir Gunnarsson, hittu knattspyrnustjórann heimsþekkta, Avram Grant, í Serbíu þar sem þeir eru staddir vegna EM í handbolta.

„Við spjölluðum aðeins við hann og Avram hlóð í nokkrar sögur af Hemma Hreiðars en hann þjálfaði hann í Portsmouth,“ segir Þorkell Gunnar.

Grant, sem hefur einnig stýrt Chelsea og West Ham, var nýlega ráðinn knattspyrnustjóri Partizan Belgrad í Serbíu og rákust þeir félagar á hann þegar þeir fengu sér mat um borð í fljótabát við ána Sava.

Aðspurður segir Þorkell Gunnar að tíminn í Belgrad hafi verið skemmtilegur. „Þetta er búið að vera voða fínt fyrir utan úrslitin í fyrsta leik. Þótt það sé smá kuldi er hann ekkert svo mikill. Hann bítur aðallega í kinnarnar.“

Helst kvartar hann yfir matnum í handboltahöllinni þar sem Ísland hefur spilað. „Það er alltaf boðið upp á einhverjar brimsaltar kryddpylsur. Það borðar þær ekki nokkur maður nema helst Einar Örn, hann er mikið fyrir saltaðan mat,“ segir Þorkell Gunnar léttur. „Ég er eiginlega farinn að sjá eftir að hafa ekki tekið með fullt af bollasúpum eins og tengdamamma lagði til.“ -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.