Fótbolti

Kári eftirsóttur í Frakklandi og Englandi

Hans Steinar Bjarnason skrifar
Kári Árnason.
Kári Árnason. Nordic Photos / Getty Images
Tvö félög úr frönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og tvö úr ensku B-deildinni hafa lýst yfir áhuga Kára Árnasyni leikmanni Aberdeen í Skotlandi. David Winnie umboðsmaður Kára staðfesti þetta í samtali við Stöð 2 en vildi ekki gefa upp um hvaða félög væri að ræða.

„Það verður erfitt fyrir Aberdeen að halda Kára. Þetta er ekki ríkt félag og getur ekki boðið há laun. Kári hefur verið frábær hjá Aberdeen í vetur og það kæmi mér ekki á óvart ef hann endurheimtir sæti sitt í íslenska landsliðinu. Það væri í raun eðlileg þróun að þegar um gæðaleikmann er að ræða eins og Kára að hann fari í sterkari deild," sagði Winnie.

Kári hefur slegið í gegn með Aberdeen í skosku úrvalsdeildinni síðan hann gekk í raðir liðsins eftir að hann var látinn fara frá enska D-deildarliðinu Plymouth í fyrra. Kári skoraði glæsilegt mark fyrir Aberdeen í óvæntu 1-1 jafntefli gegn Glasgow Rangers um helgina og Craig Brown knattspyrnustjóri vill halda leikmanninum.

„Við höfum gert honum mjög gott tilboð og vonandi fáum við svar fljótlega. Það sjá allir hversu hæfileikaríkur leikmaður hann er og því býst ég alveg eins við því að hann geri meiri kröfur," sagði Brown við BBC. Ekki lítur þó út fyrir að Kári taki tilboðinu.

„Ég kann mjög vel við mig hjá Aberdeen og væri alveg til í að vera hérna áfram. En ég á erfitt með að sætta mig við það sem þeir eru að bjóða. Þeir verða þá að koma meira til móts við mig. Mér finnst ég hafa staðið mig það vel að ég eigi skilið betri samning," sagði Kári við Stöð 2 en samningur hans við Aberdeen rennur út í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×