Fótbolti

Afar mikilvægur leikur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Stelpurnar okkar fagna vonandi mörkum í dag.
Stelpurnar okkar fagna vonandi mörkum í dag. Fréttablaðið/Daníel
Íslenska kvennalandsliðið sækir Belgíu heim í dag í afar mikilvægum leik í undankeppni EM.

Íslenska liðið á toppnum með 13 stig eftir fimm leiki en Belgía í öðru sæti með 11 stig eftir sex leiki. Noregur kemur svo þar á eftir með 9 stig eftir fimm leiki.

Sigur í dag myndi fara langt með að fleyta íslenska liðinu inn á EM en það verður ekki auðvelt eins og íslenska liðið fékk að reyna í fyrri leik liðanna sem lyktaði með markalausu jafntefli.

„Þetta er mjög mikilvægur leikur. Allar stelpurnar eru heilar og við náum vonandi að skora gegn þeim núna," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari en hvað lærði liðið af fyrri leiknum?

„Við höfum skoðað þann leik vel og hann var ekki illa spilaður og við fengum færi. Það vantaði að klára þau sem og einbeitingu. Við spilum okkar bolta áfram og eigum að vera sterkari en þær."

Sigurður segir að það yrði ekki áfall ef liðinu mistækist að vinna leikinn en veit vel að sigur setur íslenska liðið í góða stöðu.

„Við eigum eftir að spila við Norðmenn úti í lokaleiknum og markmiðið er að vera búnar að vinna riðilinn fyrir þann leik. Þá þurfum við helst að vinna þennan leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×