Enski boltinn

Mancini: Ætlar ekki að gefast upp á Balotelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli var mjög ósáttur með að fá ekki að taka aukaspyrnu á móti Sunderland.
Mario Balotelli var mjög ósáttur með að fá ekki að taka aukaspyrnu á móti Sunderland. Mynd/AP
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, ætlar að standa með vandræðagemlingnum Mario Balotelli og treysta á það að þessi 21 árs gamli framherji fari nú að þroskast. Liðsfélagar Balotelli hjá City eru orðnir mjög pirraðir á stælunum í drengnum en stjórinn ætlar ekki að reyna að selja hann í sumar.

„Nei ég ætla ekki að gefast upp á honum. Hann er ungur og ég vona að hann geti bætt sig hratt í framtíðinni. Leikmaður eins og Mario ætti að getað skorað eitt til tvö mörk í hverjum leik í ensku úrvalsdeildinni," sagði Roberto Mancini. Mario Balotelli hefur skorað 13 mörk í 21 leik í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Mancini gagnrýndi Mario Balotelli fyrir framkomu sína um helgina þrátt fyrir að leikmaðurinn hafi skorað tvö mörk enda reifst Balotelli við liðsfélaga sína inn á vellinum.

„Það var slæmt. Atvinnumaður getur ekki leyft sér að hegða sér svona þegar liðið hans er 3-1 undir," sagði Mancini en þrátt fyrir að City hafi náð að jafna leikinn tapaði liðið tveimur mikilvægum stigum í titilbaráttunni við Manchester United.

„Við verðum að vera sterkir og halda trúni. Skilaboðin eru alltaf þau sömu - við ætlum að gera allt til þess að vinna titilinn," sagði Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×