Innlent

Ekki svigrúm til frekari launahækkana

Jóhanna Margrét Gísladóttir. skrifar
Stefán Einar Stefánsson
Stefán Einar Stefánsson
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins telur að ekki sé svigrúm til frekari launahækkana við endurskoðun kjarasamninga um áramótin þrátt fyrir tvö til þrjú prósent launaskrið á árinu. Hann segir mikilvægt að nota svigrúm fyrirtækja til að lækka verðbólgu.

Samkvæmt launakönnun sem stéttarfélögin VR, SFR og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar kynntu á föstudag hafa laun hækkað að meðaltali um 7-10 prósent á síðastliðnu ári og er launaskrið umfram kjarasamninga tvö til þrjú prósent.

Formaður VR, Stefán Einar Stefánsson hefur sagt könnunina benda til þess að svigrúm sé til launahækkana þegar kjarasamningar verða endurskoðaðir í byrjun árs. Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins er ekki sammála því.

„Við þurfum að horfa fram í tímann og það sem mér finnst vera aðalatriðið er að við notum næsta ár til að komast skrefi nær einhverjum stöðugleika til lengri tíma og það gerum við ekki með því að hækka laun umfram það sem búið er að semja um," segir Vilhjálmur.

Þá telur hann núverandi launaskrið sem komið er fram vera vegna misvægis milli atvinnugreina, staða í útflutningsgreinum sé betri vegna lágs gengis krónunnar og þær leiða launaskriðið en aðrir hafa þurft að fylgja með.

„Síðan hafa launalækkanir verið að ganga til baka og allt þetta hefur kallað fram launaskriðið en það þýðir líka að við höfum ekki verið að ná verðbólgunni eins mikið niður eins og við vildum hafa gert," segir Vilhjálmur

Hann segir samhengi milli þess hverjar launahækkanir verða og verðbólgunnar í landinu og á næsta ári gefist kostur á því að koma verðbólgu undir 2,5 prósenta viðmið seðlabankans. Þá muni launakostnaður hækka um þrjú prósent á næsta ári miðað við núverandi hækkanir og það sé nú þegar meira en í nágrannalöndum okkar.

„Við viljum keppa að því að vera með verðbólgu á svipuðu róli og þessar þjóðir og þá verðum við að vera með launahækkanir á svipuðu róli líka," segir Vilhjálmur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×