Innlent

Það kostar að fara í páskafrí

Það er ekki ókeypis að fara með fjölskylduna í frí um páskana. Breki Logason skoðaði kostnað við skíðaferð fjögurra manna fjölskyldu til Akureyrar nú um páskana. Fjölskyldan okkar samanstendur af tveimur fullorðnum, kalli og konu, og tveimur yndislegum vel uppöldum fallegum börnum. Bara svona týpísk íslensk fjölskylda.

Þetta verða fjórar nætur. Lagt af stað strax að loknum kvöldfréttum, skíðað í þrjá daga og komið heim á mánudaginn. Bíllinn er meðalstór, týpískur fjölskyldubíll sem eyðir, hvað eigum við að segja, átta á hundraði í blönduðum akstri.

Og ef þið vissuð það ekki þá er bensínlítrinn kominn í 268 krónur.

Þetta eru 388,7 kílómetrar í akstri, þá erum við að sjálfsögðu að tala um Hvalfjarðargöng, Borgarfjarðarbrú, Holtavörðuheiði, Vatnsskarð og Öxnadalsheiði.

Fram og til baka.

Ekki gleyma göngunum. Þúsund kall þar. Svo þarf að hýsa okkar fólk. Leiga á sumarbústað hjá stéttarfélagi, reynslubolti segir 25 þúsund kall hið minnsta yfir páskahelgi.

Hlíðarfjall. Þrír dagar. Fullorðnir. Börn. Okkar fólk á að sjálfsögðu ennþá gömlu skíðin og lætur þau duga.

Og það þarf ekki bara bensín á bílinn.

Við vitum náttúrulega ekkert hvað fólk setur setur ofan í sig. En þar sem þau eru á Akureyri fara þau alveg pottþétt á Greifann. Og ekki gleyma Brynjuísnum

Svo hendum við mjög óvarfærnislega fimmtán þúsund kalli á haus í aðra næringu. Þið vitið, franskar í fjallinu, Kit Kat, diet kók og ein með öllu í Staðarskála.

Svo er það sundið og ætli krakkarnir fái ekki að kíkja í keilu og mamma fái kransinn fyrir næstu jól í Jólahúsinu eða sjái Stebba og Eyfa á Hótel KEA ef hún er í stuði.

Eins og sjá má er þetta mjög óvísindaleg úttekt, en allir geta verið sammála um það að fjölskyldan kemur endurnærð og sæl í bæinn.

Eitt hundrað þrjátíu og fjögur þúsund tvö hundruð og sjö er því í sjálfu sér ekkert gígantísk upphæð svona í samanburði við það að sama fjölskylda er búin að panta vikuferð til Mallorca í maí, fyrir tæpa hálfa milljón íslenskra króna. Hótel og flug. Fram og til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×