Innlent

Guðbjartur vill skoða þak á verðbætur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðbjartur Hannesson er velferðarráðherra.
Guðbjartur Hannesson er velferðarráðherra. Mynd/ MH
Hugmyndir um að setja þak á verðbætur verðtryggðra lána var kynnt á fundi Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra, með blaðamönnum í dag. Ásgeir Jónsson, doktor í hagfræði, hefur unnið skýrslu fyrir velferðarráðherra um málið.

Samkvæmt hugmyndinni getur lántakandi keypt sér tryggingu fyrir því að höfuðstóll lána hækki ekki umfram sett mörk. Öll verðbólga umfram þau mörk færist á reikning lánveitanda, eða þess sem veitir trygginguna. Gert er ráð fyrir því að tryggingagjaldið ákvarðist í frjálsum samningum. Samkvæmt útreikningum skýrsluhöfundar mætti gera ráð fyrir að árlegt tryggingagjald, vegna láns til 40 ára með 4% verðbótaþaki, næmi sem svarar 1,5% vaxtaálagi við núverandi aðstæður.

Gjaldið hækkar eða lækkar eftir því hvernig verðbólguvæntingar hreyfast, en þær eru nú í kringum 5%. Gjaldið hins vegar lækkar niður í um 1% ef verðbótaþakið er hækkað í 5%. Verðbótaþak ætti einnig að falla að hagsmunum lánveitenda þar sem líkur á vanskilum og neikvæðu eigin fé minnkar verulega með þaksetningu. Færa má rök fyrir því að slík lán ættu að njóta betri vaxtakjara en almenn verðtryggð lán.

Guðbjartur Hannesson segir að hugmynd um þak á verðbætur sé raunhæfur kostur sem ríkisstjórnin þurfi að skoða betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×