Erlent

Svona gæti heimsendir átt sér stað

Umræðan um meintan heimsendi á morgun, þann 21. desember, nær nú hámarki. Vísindamenn og sérfræðingar hafa ítrekað bent á að engar líkur séu á ragnarökum. En hættan er sannarlega til staðar. Hér fyrir neðan verður farið yfir nokkrar aðstæður sem gætu markað endalok mannkyns.

Rétt er að taka fram að líkurnar á því að þessir atburðir eigi sér stað á næstunni er nánast engar.



Ofureldfjall


Líkurnar á að öflugur jarðskjálfti rífi í sundur stærstu misgengi jarðskorpunnar eru hverfandi. En það eru engu að síður önnur jarðfræðileg fyrirbæri sem gætu stefnt framtíð mannkyns í óefni. Einna helst eru það ofureldfjöll, það er, eldfjöll sem geta framleitt yfir eitt þúsund rúmkílómetra af gosefnum í einu gosi. Talið er að um 4 til 5 slík eldfjöll séu til staðar á Jörðinni.

Jarðskjálftafræðingurinn Thorne Lay hjá háskólanum í Kaliforníu telur að slíkt eldgos geti átt sér stað. Í þeim efnum bendir hann á ofureldfjallið sem liggur djúpt undir Yellowstone-þjóðgarðinum í Bandaríkjunum. Á síðustu tveimur milljónum ára hefur eldfjallið gosið tvisvar. Lay segir að slíkt eldgos yrði reiðarslag fyrir Norður-Ameríku.

Eldgos sem þessi hafa gegnt stóru hlutverki á tímabilum fjöldaútdauða. Nægir þar að benda á aldauða risaeðlanna fyrir 65 milljónum ára. Þá leikur einnig grunur á að ofureldfjall í Síberíu hafi stuðlað mesta fjöldaútdauða jarðsögunnar fyrir rúmlega 250 milljónum ára.

Gígurinn í Yellowstone hefur risið um rúma 25 sentímetra á síðasta áratugi. Þetta gefur til kynna að kvika sé á hreyfingu djúpt í eldfjallinu. Það er hins vegar með öllu óvíst hvenær næsta eldgos mun eiga sér stað.

Smástirni

Alheimurinn er risavaxinn og mannkyn hefur rétt svo fengið nasaþef af leyndardómum geimsins. En hætturnar eru margar. Smástirni hafa lengi vel verið sú hætta sem hvað líklegust er til að marka endalok mannkyns.

Risaeðlurnar fengu að kynnast þessar hættu þegar risavaxið smástirni hafnaði í Yacatan-skaga í Mexíkó fyrir 65 milljónum ára. Við höfum átt náin kynni við stór smástirni síðustu áratugi en líkurnar á árekstri eru þó afar litlar.

Geimferðarstofnun Bandaríkjanna, NASA áætlar að stór smástirni (50 metrar) skelli á jörðinni á 100 ára fresti.

Slíkur árekstur getur valdið gríðarlegri eyðileggingu. Vísindamenn telja að stórt smástirni hafi síðast skollið á jörðinni árið 1908 á afskekktu svæði við Tunguska-ánna í Rússlandi. Sprengingin var á við þúsund kjarnorkusprengjur.

MYND/NASA
Sólstormur

Sólstormar eru algeng fyrirbæri. Þá blæs Sólin fjölmörgum bylgjum af hlöðnum eindum út í geiminn. Þessar agnir skella öðru hverju á jörðinni. Úr verður stórfenglegt sjónarspil sem við þekkjum sem norðurljós.

Stór sólstormur getur haft áhrif á rafsegulsvið jarðarinnar. Það var síðast árið 1859 sem slík bylgja skall á jörðinni. Afleiðingarnar voru minniháttar. Fregnir bárust af því þegar ritsímar bræddu úr sér og rafmagn fór af á vissum stöðum.

Margt hefur hins vegar breyst á síðustu áratugum. Rafmagn og flæði þessi er lífsnauðsynlegt samfélagi mannsins í dag. Langvarandi skortur á rafmagni gæti haft hörmulegar afleiðingar í för með sér.

Kjarnorkustríð

Kjarnorkustríð er ekki ofarlega í huga fólks þessa dagana og virðist í raun vera fjarlægur möguleiki. En staðreyndin er sú að kjarnorkuvopn hafa aldrei verið jafn algeng og í dag.

Níu lönd hafa yfir kjarnavopnum að ráða. Fimm af þeim eru aðilar að Alþjóðakjarnorkumálastofnun og hafa undirritað samning gegn útbreiðslu kjarnavopna.

Í grein sem birtist í vísindatímaritinu Physics Today árið 2008 greindu vísindamenn frá því að aðeins þyrfti 100 kjarnorkusprengjur til að framkallað kjarnorkuvetur.

Sú ógn sem talin er stafa af tilraunum Norðu-Kóreu og Íran er síðan áminning um að þessi gamla ógn er sannarlega enn til staðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×