Innlent

Sigrúnu Mjöll hefði þótt mjög vænt um þennan sjóð

„Mér þykir mjög vænt um þennan sjóð, og ég held að Sigrúnu Mjöll hefði líka þótt vænt um hann. Þetta var það sem henni fannst vanta í meðferðarstarfið hér á landi - að efla skapandi verkefni unglinga sem eru í meðferð," segir Jóhannes Kr. Kristjánsson, sjónvarpsmaður og faðir Sigrúnar Mjallar, sem lést langt fyrir aldur fram af völdum fíkniefna í byrjun júní árið 2010.

Sigrún Mjöll hefði orðið tvítug þann 22. desember næstkomandi en þá verður úthlutað í fyrsta sinn úr minningarsjóði tileinkuðum henni. Tilgangurinn sjóðsins er að styrkja skapandi verkefni ungmenna á aldrinum 12 til 18 ára sem eru í áfengis- og /eða vímuefnameðferð á meðferðarheimilum á Íslandi.

„Sigrún Mjöll var mjög drífandi stúlka, og hafði gaman af þessum skapandi verkefnum á þeim stöðum sem hún var á. Hún talaði oft um að það vantaði fjölbreytni í meðferðarstarfið hér á landi," segir Jóhannes.

Hann segir að það sé krakkana sjálfra, og starfsfólksins, að koma með hugmyndir að verkefnum. „Það er allt milli himins og jarðar. Það var mikið um snjóbrettaiðkun á Laugalandi og þar gerðu krakkarnir líka stuttmynd. Krakkarnir þurfa að hafa eitthvað fyrir stafni, gera eitthvað krefjandi og skapandi."

Umsóknarfrestur er til 17. desember næstkomandi en í umsókn skal taka fram nafn, greinargóða lýsingu á verkefni og hverju það á að skila, kostnaðaráætlun, og styrkupphæðina sem sótt er um. Í ár verður 450 þúsund krónur til úthlutunar. Umsóknir skal senda á netfangið umsokn@minningsissu.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×