Innlent

Lögreglan hvetur fólk til að vera vakandi

Jóhanna Margrét Gísladóttir. skrifar
Brotist hefur verið inn í fimm einbýlishús á höfuðborgarsvæðinu síðan um helgina. Lögreglan segir innbrotahrinuna svipa til óupplýstra innbrota fyrir rúmu ári síðan og biður hún fólk um að vera á varðbergi.

Undanfarna daga hafa óprúttnir aðilar brotist inn í einbýlishús í Hafnarfirði og Kópavogi, þrjú innbrot voru framin um helgina, eitt í gærkvöldi og eitt klukkan níu í morgun. Innbrotin eru öll svipuð og virðast þjófarnir sækja í hús sem flest standa við óbyggð svæði eða í jaðri byggðar.

„Það er farið inn í svefnherbergi og rótað þar til, aðallega teknir skartgripir, úr og hlutir sem fólk geymir í svefniherbergjum og síðan er farið út og ekki farið í aðrar álmur hússins," segir Heimir Ríkharðsson, lögreglufulltrúi. „Við teljum það ekki ólíklegt að þeir leggi bílunum frá, og labbi yfir þessu óbyggðu svæði og fari inn í þessu hús."

Sp. blm. Er þetta munstur sem þið hafið séð áður? „Já fyrir rúmu ári síðan gekk hérna yfir hrina innbrota sem voru mjög álík þessu, og þau stóðu yfir í 2-3 vikur og voru mjög svipuð þessu og við höfum grunsemd um að þetta séu sömu aðilar."

Þau innbrot sem voru hátt í þrettán talsins eru hins vegar enn óleyst og hvetur Heimir fólk til að fylgjast með öllum grunsamlegum mannaferðum í hverfum sínum og koma ábendingum til lögreglu.

„Vera dálítið vakandi fyrir nærumhverfi sínu og skrá lýsingu á fólki ef það verður var við grunsamlegar mannaferðir, skrá niður bílnúmer og fylgjast með sínu næsta umhverfi."

„Eins og við segjum, þá við viljum frekar fá einni ábendingunni meira heldur en minna sem verður til þess að við upplýsum þessi mál."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×