Erlent

Rændu líki leiðtoga Los Zetas glæpagengisins í Mexíkó

Skömmu eftir að staðfest hafði verið að hættulegasti glæpaforingi Mexíkó hefði fallið í skotbardaga við landgönguliða mexíkanska flotans í smábæ skammt frá landamærunum að Texas var líki hans rænt af útfararstofu.

Glæpaforinginn sem hér um ræðir var Heriberto Lazcano leiðtogi hinna alræmdu Los Zetas glæpasamtaka. Hann var talinn bera persónulega ábyrgð á fleiri hundruð morðum en í Mexíkó gekk hann undir viðurnefninu El Verdugo eða Böðullinn.

Á sunnudag kom til skotbardaga milli Lazcano, félaga hans og landgönguliða úr mexíkanska flotanum í smábæ um 125 kílómetra vestur af borginni Laredo í Texas. Landgönguliðarnir felldu þá báða.

Líkum þeirra var síðan komið fyrir á útfararstofu meðan beðið var eftir staðfestingu á því að þetta væri í raun umræddur glæpaforingi. Eftir að það fékkst staðfest réðust vopnaðir menn inn á útfararstofuna og rændu líki Lazcano.

Fall Þessa böðuls þykir mikill sigur fyrir stjórnvöld í Mexíkó í baráttu þeirra við glæpagengi landsins. Þess má geta að bandaríska alríkislögreglan hafði lagt 5 milljónir dollara til höfuðs Lazcano og stjórnvöld í Mexíkó höfðu bætt rúmlega 2 milljónum dollara við þá upphæð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×