Innlent

Segir forvörnum gegn sjálfsvígum sérlega ábótavant

Erla Hlynsdóttir skrifar
Minningarathöfn verður haldin í Dómkirkjunni í kvöld.
Minningarathöfn verður haldin í Dómkirkjunni í kvöld.
Faðir pilts sem framdi sjálfsvíg þegar hann var 22ja ára segir forvörnum gegn sjálfsvígum verulega ábótavant á Íslandi. Á Íslandi fremja tveir til þrír sjálfsvíg í hverjum mánuði. Alþjóðlegur dagur tileinkaður forvörnum vegna sjálfsvíga er í dag. Talið er að í heiminum öllum verði sjálfsvíg á 40 sekúntna fresti. Á Íslandi eru að jafnaði 33 til 37 sjálfsvíg á ári. Á síðasta ári voru þau 40.

Benedikt Þór Guðmundsson er meðal þeirra sem deila reynslu sinni á málþingi um sjálfsvíg í dag. „Sonur minn, Pétur, tók sitt líf árið 2006, þá 22ja ára gamall. Það náttúrulega snýst allt á hvolt í lífinu, mörg vandamál og mikið af hugsunum sem við þurfum að takast á við," segir Benedikt.

Benedikt finnst forvörnum og fræðslu um sjálfsvíg vera ábótavant á Íslandi. Nei, því miður þá erum við íslendingar mjög langt á eftir hvað varðar forvarnir í sjálfsvígum, og lykillinn að forvörnum er að hafa opinskáa umræðu um þetta, því opinská umræða hún eflir bara forvarnir," segir hann. Hann segir það miður að þagnarmúr ríki í kring um þetta málefni.

Klukkan þrjú verður haldið málþing í safnaðarheimili Dómkirkjunnar um sjálfsvíg. Þar koma saman aðstandendur, geðlæknar, og fólk sem hefur upplifað sjálfsvígshugsanir en komist í gegn um skaflinn. „Við viljum líka á þessum degi hvetja stjórnvöld og félagasamtök og alla einstaklinga til að efla forvarnir gegn sjálfsvígum," segir hann.

Í kvöld verður síðan samverustund í Dómkirkjunni með tónlistaratriðum, og því næst verður kertum fleytt á tjörninni til minningar um látna ástvini, ef veður leyfir, og þeirra minnst sem hafa framið sjálfsvíg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×