Enski boltinn

Solbakken um Björn Bergmann: Virðist alltaf meiðast í sófanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björn Bergmann Sigurðarson í leik með Wolves.
Björn Bergmann Sigurðarson í leik með Wolves. Mynd/Nordic Photos/Getty
Stale Solbakken, stjóri Wolves, hefur eins og landsliðsþjálfarinn Lars Lagerbäck lítið getað notað Björn Bergmann Sigurðarson á tímabilinu en þessi stórefnilegi íslenski framherji er búinn að vera mikið meiddur. Björn Bergmann hefur sem dæmi ekki enn náð að spila landsleik fyrir Lagerbäck þótt að Svíinn hafi verið duglegur að velja hann í landsliðshópana sína.

Björn Bergmann stóð sig vel á undirbúningstímabilinu með Wolves en hefur krækt í hver meiðslin á fætur öðrum eftir að b-deildin fór af stað. Hann hefur aðeins náð að spila í 47 mínútur í fyrstu fjórum umferðunum. Solbakken tjáði sig um Björn Bergmann og meiðsli hans í viðtali við Birminghammail.

„Björn hefur verið mjög óheppinn með meiðsli. Þetta hafa ekki verið alvarleg meiðsli en þrjú mismundandi lítil meiðsli. Hann var frá æfingum í tíu daga vegna eins þeirra og missti úr viku vegna annarra meiðsla," sagði Stale Solbakken.

„Mér fannst hann vera okkar besti maður á móti Southampton en eftir þann leik var hann frá vegna meiðsla í tíu daga. Hann kom inn á í 20 mínútur í einum leiknum og gerði góða hluti en meiddist síðan aftur," sagði Solbakken.

„Ákefðin í enska boltanum hefur kannski eitthvað að segja en hann virðist þó ekki vera að meiðast í leikjunum sjálfum heldur eftir þá. Það er eins og hann meiðist við það að leggjast á sófann heima," sagði Solbakken en bætti strax við:

„Þetta gæti líka verið það að hann gefi svo mikið í leikina að líkaminn hans ráði ekki nógu vel við það," sagði norski stjórinn hjá Úlfunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×