Innlent

Bændur kunna að bjarga sér

BBI skrifar
Rafmagnsleysið bitnar einna verst á kúabændum með stór kúabú.
Rafmagnsleysið bitnar einna verst á kúabændum með stór kúabú. Mynd/Stefán Karlsson
Bændur á Norðurlandi sem sjá fram á rafmagnsleysi næstu daga finna leiðir til að bjarga sér. Flestir eru með litlar rafstöðvar við býlin sín og þeir sem ekki búa svo vel geta sótt slíkar rafstöðvar og ekið þeim á milli bæja. Þannig er komið í veg fyrir mikið tjón sem rafmagnsleysi getur valdið í landbúnaði.

Eins og fram hefur komið eru heilu sveitirnar á Norðurlandi rafmagnslausar, og verða líklega næstu tvo daga. Rafmagnsleysi getur bitnað sérlega illa á kúabúum og jafnvel eyðilagt nytina í kúm á örfáum dögum. Þetta segir Ólafur Vagnsson, ráðunautur í Búgarði á Norðausturlandi. Hann útskýrir það frekar:

Þegar rafmagn fer af kúabúum verður mjaltakerfið ónothæft. Á venjulegu íslensku kúabúi er ekki vinnandi vegur að handmjólka allar kýrnar. Þar af leiðir að framleiðslan í þeim stöðvast og ef slíkt ástand viðhelst í fáeina daga er ekki ólíklegt að erfitt eða ómögulegt verði að ná nytinni upp aftur um ókomna framtíð. Það myndi skila sér í miklu tjóni fyrir hvert kúabýli.

Rafstöðvarnar eru tengdar við traktora.
„Þannig að það er eins gott að menn kunni að bjarga sér," bætir Ólafur við enda getur þetta alltaf komið fyrir.

„Þó það hafi kannski ekki gerst oft síðustu árin að rafmagn fari af heilu sveitunum þá þekkja menn það vel frá fyrri tíð og eru viðbúnir því," segir Ólafur. Menn bjarga sér með litlum rafstöðvum sem tengdar eru í traktora og framleiða þannig nægilegt rafmagn fyrir heilt býli til að halda uppi starfseminni.

„Ég hef alla vega ekki enn heyrt af neinum sem nær ekki að bjarga sér. Menn finna út úr þessu, en oft með mjög miklu brasi, aukinni vinnu og veseni," segir Ólafur.


Tengdar fréttir

Norðlendingar sennilega rafmagnslausir í tvo daga

Búast má við því að íbúar á norðausturlandi þurfi að búa við rafmagnsleysi í tvo daga til viðbótar á sumum svæðum. Örlygur Jónasson framkvæmdastjóri Rekstrarsviðs RARIK segir að allur tiltækur mannskapur sé nú við viðgerðir eftir að miklar skemmdir urðu á raflínum á Norðausturlandi í gær. Verið er að vinna við línur í Skagafirði, Bárðardal, Laxárdal og í Mývatnssveit. Þungfært er enn í Mývatnssveit og því erfitt um vik fyrir viðgerðarmenn. Ljóst er að um áttatíu staurar hafa brotnað í óveðrinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×