Innlent

Íslendingar stjórna fyrstu nýsköpunarhelgi Írans

BBI skrifar
Kristján Freyr Kristjánsson á tali við þátttakanda á nýsköpunarhelginni.
Kristján Freyr Kristjánsson á tali við þátttakanda á nýsköpunarhelginni.
Fyrsta nýsköpunarhelgi í Íran frá upphafi var haldin á dögunum. Íslendingar voru fengnir til að halda utan um dagskrána. Þeir telja að helgin hafi verið stór viðburður í landinu öllu og mikilvægt fyrir Írana að koma verkefnum af þessum toga af stað.

Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri Innovit frumkvöðlaseturs, fór út til Íran og stýrði helginni sem fram fór í Tehran undir yfirskriftinni Startup Weekend. „Þau hafa aldrei í landinu haft neins konar viðburð í líkingu við þetta áður," segir hann.

Kristján útskýrir að efnahagur Íran sé fremur bágborinn sem stendur, en Bandaríkjamenn hafa sett viðskiptaþvingar á landið vegna kjarnorkuáætlana stjórnvalda. Fyrir vikið virka t.d. engin kreditkort í öllu landinu.

Þátttakendur á nýsköpunarhelginni í Íran komnir upp á svið.
„Svo þetta er slæmt ástand. En þrátt fyrir það eru töluverð gæði í öllu," segir Kristján. Hópurinn sem sótti nýsköpunarhelgina var óhemju hæfileikaríkur að mati Kristjáns. Hann telur að atburðir sem þessir geti skapað grósku í atvinnulífinu og blásið hæfileikaríkum einstaklingum nauðsynlegu sjálfstrausti í brjóst.

„Við vonum að þetta verði smá kickstart. Að menn sjái hvað hægt er að gera með öðrum og nýjum aðferðum," segir hann. Nýsköpunariðnaður í Íran er óplægður akur að mati Kristjáns og spennandi að koma þess háttar starfsemi í gang.

120 einstaklingar tóku þátt í nýsköpunarhelginni þar sem 70 hugmyndir voru kynntar. Í lok helgar voru 10 bestu hugmyndirnar valdar og allir þátttakendur lögðust á eitt við að gera fullmótaðar viðskiptahugmyndir eða jafnvel alsköpuð smáforrit úr þeim.

Ástæðan fyrir því að Íslendingar voru fengnir til að stýra helginni í þetta sinn er sú að þeir hafa töluverða reynslu af nýsköpunarverkefnum. Einnig er óvenjuerfitt fyrir Bandaríkjamenn að ferðast til Íran og fá vegabréfsáritun þar eins og stendur.

Hér að neðan má sjá stutt myndband sem gert var eftir nýsköpunarhelgina í Íran.


SW Tehran, Iran-Vimeo HD from Kristján Kristjánsson on Vimeo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×