Innlent

Frændinn talinn sekur en samt sýknaður

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Dómsalur. Myndin er úr safni.
Dómsalur. Myndin er úr safni.
Maður sem ákærður var fyrir fjölda kynferðisbrota gagnvart bróðurdóttur sinni hefur verið sýknaður í dómi Héraðsdóms Vesturlands frá fyrsta þessa mánaðar.

Samkvæmt ákæru braut maðurinn gegn stúlkunni á árunum 1990 til 1996, frá því hún var sex ára og til þrettán ára aldurs.

Í niðurstöðum dómsins kemur fram að framburður stúlkunnar sé talinn trúverðugur og fái stuðning í fjölda atriða. Að því virtu þykir dómnum „ekki varhugavert að slá því föstu að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir og rétt er færð til refsiákvæða í ákæru“.

Vafi er hins vegar talinn leika á hvenær síðustu brot áttu sér stað og var það talið manninum í hag.

Ósannað var því talið að hann hefði brotið gegn stúlkunni eftir að hún varð 12 ára. Á þeim tíma vörðuðu brot mannsins 12 ára fangelsi og giltu ákvæði um að brotin fyrndust á 15 árum.

„Í samræmi við framangreinda niðurstöðu dómsins verður að telja að fyrningarfrestur hafi byrjað að líða 17. júní 1995 og var sök því fyrnd þann 17. júní 2010,“ segir í dómnum, en manninum var tilkynnt um framkomna kæru 22. nóvember 2010.

„Verður því ekki hjá því komist að sýkna hann af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.“

Bótakröfum var vísað frá í dómnum, en hann kváðu upp Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri og meðdómarar hans, Allan Vagn Magnússon og Barbara Björnsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×