Sport

Íslenskt úrvalslið í rugby mætir bandarískum andstæðingi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Brandur Jóns
Úrvalslið Rugby Íslands mætir The Skippy Lizards RFC frá New York í æfingaleik á Hlíðarenda á laugardaginn.

Lið eðlanna var stofnað árið 2004 til heiðurs þjálfaranum Paddy Bartlett sem var atvinnumaður í rugby deild Nýja Sjálands. Liðið samanstendur af leikmönnum frá öllum Bandaríkunum auk leikmanns frá Englandi.

Leikmenn eru að þessu sinni valdir af Steve Raia, stofanda og fyrirliða liðsins. Frá árinu 2008 hefur liðið einbeitt sér að keppnisferðum og að þessu sinni var Ísland fyrir valinu.

Úrvalslið Rugby Íslands er valið af þjálfurunum Peter Short og Andrew Britten-Kelly og samanstendur af leikmönnum frá rugby félögum Kópavogs og Reykjavíkur. Rugby á Íslandi er enn í uppbyggingarfasa og hver leikur við erlend lið mikil lyftistöng fyrir íþróttina hér á landi að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Fyrir hluta liðsmanna verður um frumraun í fullum leik um að ræða.

Leikurinn á laugardaginn hefst klukkan 15 á íþróttasvæði Vals að Hlíðarenda. Áætlaður leiktími er 80 mínútur og áhugafólk um íþróttina sem aðrir boðnir velkomnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×