Fótbolti

Zidane vill þjálfa franska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zinedine Zidane með HM-bikarinn sem Frakkar unnu 1998.
Zinedine Zidane með HM-bikarinn sem Frakkar unnu 1998. Mynd/AFP
Zinedine Zidane kemur til greina sem næsti þjálfari franska landsliðsins í fótbolta en þetta staðfesti Noel Le Graet, forseti franska sambandsins. Frakkar eru að leita að nýjum þjálfara eftir að Laurent Blanc hætti með liðið eftir Evrópumótið.

„Það er gaman að segja frá því að Zinedine Zidane hefur sýnt áhuga á að vinna náið með franska landsliðinu í framtíðinni. Ef það er ekki möguleiki núna þá dreymir hann um að verða þjálfari franska landsliðsins á næstu tíu árum," sagði Noel Le Graet við AFP-fréttastofuna.

„Hann sagði okkur að hann er klár í að ná í allar þjálfaragráðurnar sem eru nauðsynlegar," bætti Le Graet við.

Zinedine Zidane spilaði sinn síðasta landsleik í úrslitaleik HM 2006 en hann fékk þá að líta rauða spjaldið fyrir að skalla Ítalann Marco Materazzi í bringuna. Zidane var þá að leika sinn 108. landsleik og hafði fyrir leikinn verið valinn besti leikmaður Heimsmeistarakeppninnar.

Zidane þarf þó væntanlega að bíða eftir því að fá tækifærið en það er talið langlíklegast að Didier Deschamps, þjálfari Marseille, taki við franska liðinu af Laurent Blanc.

Zinedine Zidane, Didier Deschamps og Laurent Blanc urðu allir Heims- og Evrópumeistarar saman á árunu 1998 til 2000 en Deschamps var þá fyrirliði liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×