Fótbolti

Ísland upp um tvö sæti á FIFA-listanum | Brasilía í lægð

Eiríkur STefán Ásgeirssion skrifar
Ísland hoppar upp um tvö sæti á styrkleikalista FIFA og situr nú í 129. sæti. Er það engu að síður ein versta staða Íslands á listanum síðan hann kom fyrst út árið 1993.

Ísland hefur ekkert spilað síðan að síðasti listi kom út en liðið er enn að bíða eftir sínum fyrsta sigri undir stjórn Lars Lägerback. Næsti leikur Íslands verður gegn Færeyjum á Laugardalsvelli þann 15. ágúst næstkomandi. Verður það síðasti leikurinn áður en undankeppni HM 2014 hefst í september.

Spánn er sem fyrr á toppi listans og hefur aukið forystu sína eftir að liðið varð Evrópumeistari um síðustu helgi. Ítalía hoppaði upp um sex sæti og er í sjötta sætinu en Ítalir komu mörgum á óvart með því að komast alla leið í úrslitaleik keppninnar.

Þýskaland er í öðru sæti og fer upp um eitt sæti, Portúgal fer úr því tíunda í fimmta og England er nú í fjórða sæti eftir að hafa verið í sjötta sæti í síðasta mánuði.

Hollendingar, sem töpuðu öllum sínum leikjum í riðlakeppni EM, detta úr fjórða sæti niður í það áttunda.

Brasilía er nú í fyrsta sinn utan efstu tíu liða á listanum síðan hann kom fyrst út. Liðið er í ellefta sæti en var í því sjötta í síðasta mánuði.

Úrúgvæ er í þriðja sæti, Argentína því sjöunda og Króatía í níunda sæti. Danir eru svo í tíunda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×