Fótbolti

Króatar nældu í stig gegn Ítalíu

Pirlo fagnar marki sínu í dag. Það dugði ekki til sigurs.
Pirlo fagnar marki sínu í dag. Það dugði ekki til sigurs. Nordic Photos / Getty Images
Króatar eru á toppi C-riðils EM með fjögur stig eftir 1-1 jafntefli gegn Ítalíu í dag. Ítalir með tvö stig eftir tvo leiki.

Það var lítið líf í fyrri hálfleik og fátt sem benti til þess að annað liðið myndi skora þegar Andrea Pirlo tók málin í sínar hendur.

Hann kom þá Ítölum yfir með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu. Setti boltann yfir vegginn og neðst í nærhornið. Mögnuð tilþrif.

Í kjölfar marksins var vörninni lokað að ítölskum sið. Öll sund voru lokuð fyrir duglega Króata sem rembdust eins og rjúpan við staurinn án árangurs.

Allt þar til á 72. mínútu er Mario Mandzukic fékk boltann í teignum. Hann skaut á nærstöng. Boltinn í stöngina og inn. Þriðja mark Mandzukic á EM og hann jafnaði þar með met Davors Suker yfir flest mörk Króata á EM.

Stuðningsmenn Króata kveiktu á blysum til þess að fagna markinu. Svo mikill reykur kom af blysunum að vart sást í annan vallarhelminginn um tíma.

Liðin gáfu allt til þess að vinna leikinn undir lokin en allt kom fyrir ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×