Fótbolti

Hodgson: Það má ekki vanmeta Zlatan

Svíinn Zlatan Ibrahimovic hefur ekki átt sína bestu leiki gegn enskum félagsliðum. Hann hefur aðeins skorað þrjú mörk í fimmtán leikjum gegn enskum liðum.

Zlatan fær að reyna sig gegn enska landsliðinu í kvöld. Þó svo honum hafi ekki gengið vel gegn enskum liðum segir Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englands, að hafa verði góðar gætur á Zlatan í kvöld. Það megi ekki vanmeta hann.

"Hann hefur kannski ekki alltaf staðið undir væntingum þegar hann hefur spilað á Englandi. Þá hefur hann líka verið að mæta sterkum liðum sem hafa gert vel í að stöðva hann," sagði Hodgson.

"Það efast enginn um hæfileika þessa stráks og þessi gæði koma alltaf upp á yfirborðið á endanum. Hann er þjóðhetja í Svíþjóð og skal engan undra þar sem hann hefur náð ótrúlegum árangri sem leikmaður.

"Hann er stórhættulegur og ef hann fær tækifæri til þess að refsa liðum þá mun hann gera það. Hann er heimsklassaleikmaður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×