Fótbolti

Hodgson: Það verður allt vitlaust í klefanum byrji Rooney ekki

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hodgson þakkar Zlatan Ibrahimovic fyrir leikinn í Kænugarði í kvöld.
Hodgson þakkar Zlatan Ibrahimovic fyrir leikinn í Kænugarði í kvöld. Nordicphotos/Getty
Roy Hodgson, þjálfari Englendinga, var hæstánægður með sigurinn á Svíum sem var um leið fyrsti sigur Englands á Svíum í keppnisleik.

„Þetta var stórkostlegur fótboltaleikur. Okkur leið ágæltega í hálfleik og vorum í bílstjórasætinu þar til þeir gripu okkur í landhelgi," sagði Hodgson.

England leiddi 1-0 í hálfleik með marki Andy Carroll. Svíar skoruðu tvívegis í upphafi síðari hálfleiks eftir föst leikatriði og útlitið svart.

„Við vorum vel meðvitaðir um hve sterkir þeir væru í föstum leikatriðum og sú varð raunin. Liðið brást þó afar vel við mótlætinu," sagði Hodgson sem hrósaði fyrirliðanum Steven Gerrard í hástert.

„Steven hefur verið frábær síðan hann var gerður að fyrirliða. Hann var fyrsta val og síðan ég valdi hann hefur honum hvorki skrikað fótur á vellinum eða í einkalífinu. Hann spilar eins og fyrirliði á að gera og hefur verið einn besti leikmaður keppninnar," sagði Hodgson.

Þjálfarinn stendur frammi fyrir erfiðu vali fyrir lokaleikinn gegn Úkraínu. Andy Carroll og Danny Welbeck voru báðir á skotskónum í kvöld en auk þess verður Wayne Rooney til taks eftir að hafa tekið út leikbann.

„Leikmaður eins og Rooney gæti gert gæfumuninn gegn Úkraínu og ég er hæstánægður að hann sé möguleiki. Ef ég setti hann ekki í byrjunarliðið yrði allt vitlaust í klefanum," sagði Hodgson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×