Fótbolti

Öll liðin geta komist áfram

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Skemmtilegt atvik úr leik Rússlands og Póllands fyrr í vikunni
Skemmtilegt atvik úr leik Rússlands og Póllands fyrr í vikunni MYND:NORDIC PHOTOS/GETTY
Síðustu leikir A-riðil á Evrópumeistaramótinu í fótbolta hefjast í kvöld klukkan 18:45 en öll fjögur liðin geta komist áfram í átta liða úrslit fyrir kvöldið. Rússland stendur þó óneitanlega best að vígi í efsta sæti riðilsins en Rússar mæta Grikkjum á sama tíma og Pólland og Tékkland eigast við.

Rússland er í efsta sæti riðilsins með fjögur stig og mætir Grikklandi sem er á botninum með eitt stig. Rússland valtaði yfir Tékka 4-1 í fyrstu umferð riðlakeppninnar en gerði svo 1-1 jafntefli við Pólland í annarri umferðinni. Grikkland gerði einnig 1-1 jafntefli við Pólland en tapaði síðan 2-1 fyrir Tékkum.

Rússlandi dugir jafntefli gegn Grikklandi til að tryggja sæti sitt í átta liða úrslitum en Grikkjum dugir ekkert annað en sigur. Tékkar eru með þrjú stig og Pólland tvö og því ljóst að það lið sem vinnur þann leik fer áfram.

Pólland er úr leik ef liðið vinnur ekki en Tékkar geta farið áfram á jafntefli ef Grikkland vinnur ekki Rússland. Fari svo að Grikkland vinni Rússland og Tékkland og Pólland geri jafntefli verða Rússland, Tékkland og Grikkland öll jöfn með 4 stig.

Tékkar eru með tvö mörk í mínus í innbyrðis viðureignum þjóðanna. Grikkir verða alltaf með betri árangur en það í þessari stöðu þar sem liðið tapaði með einu marki gegn Tékkum. Fyrir Tékka að fara áfram ef úrslitin verða á þennan veg þurfa Grikkir að sigra Rússa með sex marka mun. Það verður því að teljast líklegt að jafntefli dugi Tékkum ekki gegn Póllandi ef Grikkland næði að sigra Rússland.

Vinni Tékkland eða Pólland leik þjóðanna og Grikkland vinnur Rússland situr Rússland eftir. Það má því ætla að öll fjögur liðin blási til sóknar í kvöld og ætli sér sigur en A-riðillinn hefur verið hin besta skemmtun og mikið af mörkum skoruðum í leikjunum fjórum til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×