Fótbolti

UEFA kærir Króatíu vegna rasisma

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Stuðningsmenn Króatíu þóttu láta ófriðlega á pöllunum gegn Ítalíu
Stuðningsmenn Króatíu þóttu láta ófriðlega á pöllunum gegn Ítalíu MYND:NORDIC PHOTOS/GETTY
Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) hefur kært knattspyrnusamband Króatíu vegna framkomu stuðningsmanna króatíska landsliðsins í fótbolta í garð Mario Balotelli í leiknum gegn Ítalíu á Evrópumeistaramótinu í fótbolta sem fram fer í Úkraínu og Póllandi.

UEFA vill uppræta apahljóð í átt að þeldökkum leikmönnum á Evrópumeistaramótinu og hefur því kært knattspyrnuyfirvöld í Króatíu vegna meintra apahljóða í garð Balotelli þegar Króatía og Ítalía skildu jöfn 1-1 í C-riðli keppninnar á fimmtudaginn.

Stuðningsmenn króatíska landsliðsins hafa líka verið sakaðir um að kasta bananahýðum á völlinn en ekki er ljóst hvort það sé tekið inn í ákæruna eða hvort það mál verði tekið fyrir sér.

Í yfirlýsingu frá UEFA segir; "UEFA hefur ákært knattspyrnusamband Króatíu (HNS) fyrir að kveikja í og kasta blysum og fyrir framkomu stuðningsmanna (rasísk köll, rasísk tákn) á leik gegn Ítalíu í C-riðli Evrópumeistaramótsins 2012 í Poznan á fimmtudaginn.

"Aganefnd UEFA mun taka málið fyrir þann 19. júní."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×