Innlent

Þingmaður undrandi

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur Stjórnlagaráðs að breytingum á stjórnarskránni mun fara fram í haust samkvæmt breytingartillögu sem lögð var fram á Alþingi í gær. Þingmaður minnihlutans undrast hversu langan tíma það tók að taka ákvörðun um feril málsins.

Það var meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis auk Guðmundar Steingrímssonar og Margrétar Tryggvadóttur sem lögðu fram breytingatillöguna á Alþingi í gær en í henni er gert ráð fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla fari í síðasta lagi fram 20.október. Upphaflega stóð til að hún færi fram samhliða forsetakosningum en ekki náðist samkomulag um það á Alþingi í tæka tíð í lok mars.

Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins undrast á því hversu langan tíma það tók meirihluta nefndarinnar að ákveða hvaða leið skyldi vera farin í þessu máli.

„...vegna þess að það var alveg ljóst í lok mars, að ef þau ætluðu að láta málið ganga áfram þá þyrftu þau að skipta um kúrs og það kom mér á óvart að það skyldi taka heilan mánuð að ákveða hvaða leið þau færu í því sambandi," segir Birgir.

Hann segir bæði kosti og galla við það að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna eina og sér í haust en ekki samfara forsetakosningum. Þá sé minni hætta að umræða í aðdraganada kosninga smitist saman en á móti kemur aukinn kostnaður og mögulega lakari kjörsókn. Andstaða sjálfstæðismanna sé hins vegar áfram sú sama, að ekki sé tímabært að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrren búið er að vinna tillögurnar í þinginu.

„Við teljum að það sé rétt að gera breytingar á stjórnarskrá en þarna er verið að fara með málsmeðferðina út og suður," segir Birgir.

Annarri umræðu um málið var frestað í lok mars og verður henni nú haldið áfram á næstu dögum þar sem breytingartillagan verður rædd og að lokum greidd atkvæði um hana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×